Innlent

Stjórnarnefnd LSH fagnar

Stjórnarnefnd Landspítala - háskólasjúkrahúss fagnar því að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hafi tekið af öll tvímæli um lögmæti stjórnskipulags spítalans. Þetta kemur fram í ályktun nefndarinnar sem send var fjölmiðlum rétt áðan. Þar segir að ráðuneytið telji að skipurit LSH sé í fullu samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu. Sameining sjúkrahúsanna í Reykjavík, og þar með óhjákvæmileg endurskoðun á skipulagi og starfsemi hans, hefur orsakað mikið álag á starfsmenn spítalans samkvæmt ályktuninni. Þrátt fyrir það hafi spítalinn sýnt fram á mjög góðan árangur í rekstri og megi benda á aukin afköst í starfsemi hans á síðasta ári samhliða sparnaði í rekstri sem skilar sér beint í fækkun á biðlistum eftir þjónustu hans. „Stjórnskipulag spítalans hefur stutt vel við þessar breytingar og hinn góða árangur í rekstri,“ segir í ályktuninni  Forstjóri og framkvæmdarstjórn munu á næstunni boða til fundar með fulltrúum yfirlækna, sviðsstjóra og læknaráðs og hjúkrunarráðs LSH með það að leiðarljósi að efla enn frekar samskipti og auka samráð þessara aðila og yfirstjórnar LSH.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×