Erlent

Ferðaðist víða á fölsuðu vegabréfi

Ströng gæsla. Vopnuð lögreglukona stendur vörð við dómhús í Madríd þangað sem farið var með Gotovina í gær.
Ströng gæsla. Vopnuð lögreglukona stendur vörð við dómhús í Madríd þangað sem farið var með Gotovina í gær.

Króatíski hershöfðinginn fyrrverandi, Ante Gotovina, sem nú bíður þess að vera framseldur frá Spáni til stríðsglæpadómstóls Sameinuðu þjóðanna í Haag, hafði ferðast víða um heiminn á fölsuðu vegabréfi er hann náðist á hóteli á Kanaríeyjum á miðvikudagskvöld.

Frá þessu greindu fulltrúar spænskra yfirvalda fyrir helgi. Spænska lögreglan handtók Gotovina eftir að alþjóðalögreglunni Interpol hafði borist ábending um að hann dveldi á hóteli á Tenerife. Jose Antonio Alonso, innanríkisráðherra Spánar, sagði í gær að Gotovina yrði framseldur til Haag eins fljótt og auðið yrði. Spænska lögreglan hafði fengið ábendingu um að til Gotovina hefði sést á Kanaríeyjum í ­októ­ber­ síðastliðnum.

Eftir það var lögreglan þar á verði. Spænska fréttasjónvarpsstöðin CNN+ sýndi brot úr lögreglumyndbandi þar sem sást hvar lögreglumenn gengu að Gotovina á veitingastað hótelsins. Hann virtist ekki sýna neina mótspyrnu við handtökuna. Alonso sagði að í fórum hans hefðu fundist 12.000 evrur í reiðufé, fartölva og tvö fölsuð vegabréf.

Í vegabréfinu sem hann notaði við komuna til Kanaríeyja var að finna nýlega stimpla frá Tahítí, Argentínu, Kína, Chile, Rússlandi og Tékklandi, svo og eynni Máritíus á Indlandshafi. Gotovina stýrði landher Króatíu í Júgóslavíustríðinu 1991-1995. Hann er sakaður um að hafa borið ábyrgð á fjöldamorði á Króatíu-Serbum og brottrekstri um 150 þúsund þeirra frá Króatíu. Hann er þjóðhetja í augum margra Króata. Króatískir þjóðernissinnar efndu í gær til mótmæla í Kró­atíu vegna handtöku hans. Ásakanir um að króatísk stjórnvöld héldu yfir honum hlífiskildi töfðu upphaf aðildarviðræðna Króata við Evrópusambandið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×