Innlent

Breytingar vegna fornleifafundar

Breyta þarf hönnun í kringum Nesstofu á Seltjarnarnesi eftir að stétt sem er við húsið fannst við fornleifauppgröft á svæðinu. Ýmsir smámunir hafa fundist við uppgröftinn. Framkvæmdir hafa staðið yfir í kringum Nesstofu en til stendur að lækka yfirborð svæðisins og finna upprunalegt yfirborð, eða eins og það var þegar húsið var byggt um miðja átjándu öld. Guðmundur Ólafsson, fagstjóri fornleifa Þjóðminjasafns, segir að upphaflega hafi líka staðið til að finna út hvort stétt hafi upphaflega verið í kringum húsið. „Ég sé ekki betur en að við séum núna komin niður á þá stétt,“ segir hann. Reiknað er með að vinna við fornleifauppgröftinn í kringum Nesstofu taki allt að tvo mánuði. Guðmundur segir að búið hafi verið að hanna svæðið í kring og því átti hann ekki von á að finna neitt. Með hliðsjón af fyrrnefndum fundi þurfi þó líklega að breyta hönnuninni smávegis.  Grískur fornleifafræðingur, Angelos Parigoris að nafni, sem unnið hefur undanfarin þrjú sumur við fornleifauppgröft að Hólum, var fenginn til að aðstoða við verkefnið við Nesstofu. Hann segir starfið spennandi og ganga ágætlega. „Nokkrir áhugaverðir hlutir hafa komið upp og vonandi verður meira um það,“ segir Parigoris. Á meðal smáhluta sem fundist hafa eru naglar, leirker og gler - dæmigerðir hlutir fyrir Ísland að sögn Grikkjans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×