Innlent

Veðjað um Ingibjörgu og Össur

Fólk getur nú freistað þess að gera sér mat úr formannskjörinu í Samfylkingunni og verða einhverjum krónum (eða evrum) ríkara. Veðbankinn Betsson gerir fólki kleift að veðja um hvort Ingibjörg Sólrún Gísladóttir eða Össur Skarphéðinsson fer með sigur af hólmi og hafa þegar heilar sjö evrur, sem jafngilda 546 krónum, verið lagðar undir. Betsson er vettvangur fyrir fólk til að veðja hvert við annað en ekki er veðjað við banka, né heldur fær sigurvegarinn pottinn eins og í getraunum. Á Betsson er fyrst og fremst hægt að veðja um úrslit erlendra íþróttamóta- og kappleikja en formannskjörið í Samfylkingunni er fyrsti viðburðurinn á sviði íslenskra viðskipta og stjórnmála sem boðið er upp á. Ætlunin er að bæta slíkum viðburðum inn þegar efni og aðstæður eru til. Ingibjörg og Össur hafa bæði komið sér þaki yfir höfuðið í Ármúlanum, Ingibjörg starfrækir kosningaskrifstofu á þriðju hæð hússins númer eitt en Össur starfsstöð á annarri hæð hússins númer 40.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×