Lífið

Langar að týnast á Íslandi

Leitin að sjálfum sér er lykilþemað í myndum leikstjórans Walters Salles, sem verður við frumsýningu nýjustu myndar sinnar í kvöld. Hann ákvað að framlengja dvöl sína á Íslandi því hann langar að týnast hér. Byltingarleiðtoginn Che Guevara er umfjöllunarefni nýjustu myndar Salles, Diarios de motocicleta. En hvers vegna Che? Salles segir að myndin sé um Ernesto Guevara, áður en hann hafi orðið uppreisnarleiðtoginn Che. Sagan segi frá fyrsta ferðalagi hans um Rómönsku-Ameríku. Hún fjalli um sjálfsuppgötvun en jafnframt það sem kalla mætti uppgötvun á sjálfsmynd Rómösku-Ameríku. Það sem sé áhugvert við myndina sé að hún sé ekki um átrúnaðargoðið Che sem sjáist á bolum fólks heldur ungan mann sem efist, hafi enga fullvissu og reyni að finna sjálfan sig og velja. Vegamyndir eru áberandi þegar litið ef yfir feril Salles. Central Station og Behind the Sun segja einnig þroskasögur einstaklinga. Sjálfur er Salles sonur diplómata, ferðaðist mikið í æsku og segir að fyrsta æskuminningin sé af veginum fram undan. Hann segist heillaður af myndum þar sem persónurnar komist á leiðarenda og hafi breyst frá því að þær hófu ferðalagið. Hann segist telja þetta tengjast því að íbúar Rómönsku-Ameríku tengist allir landi eða heimsálfu sem sé enn að skilgreina sig og velja hvað hún vilji vera. Vegamyndirnar séu góð leið til að einbeita sér að þessu og sjá hvernig breytingar eigi sér stað. Það sé ekkert vit í því að gera vegamyndir í þjóðfélögum sem séu í mjög föstum skorðum. Þegar hann hafi heyrt um Börn náttúrunnar, mynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, hafi hann ekki skilið hvernig væri hægt að gera vegamynd á Íslandi. Það hafi í fyrstu reynst lítið vit í því fyrir honum en svo hafi annað komið í ljós. Spurningin um sjálfsmyndina sé fyrir hendi í íslenskum bókmenntum, Íslendingasögunum og tónlist og kvikmyndum. Hann telji að þetta tengist leitinni að því hver við séum, hvaðan við komum og hvert við stefnum. Salles ákvað eftir komuna hingað til lands, eftir að hafa flækst um Reykjavík, hlustað á Múgison og fleira, að framlengja dvöl sína og villast. Hann bendir á að skáldið Fernando Pesoas hafi sagt að maður gæti aðeins þekkt land eða borg ef maður villtist þar. Salles er staddur hér á landi vegna kvikmyndahátíðar sem hefst í kvöld, en þar verða í boði 65 myndir hvaðanæva úr heiminum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.