Lífið

Bowles verður ekki drottning

Camilla Parker Bowles verður ekki prinsessa af Wales þegar hún giftist Karli Bretaprinsi hinn 8. apríl næstkomandi. Og hún verður heldur ekki drottning þótt hann verði konungur. Þótt meirihluti bresku þjóðarinnar virðist hafa sætt sig við að Karl kvænist Camillu Parker Bowles er augljóst að konungsfjölskyldan leggur mikla áherslu á að sýna fram á að henni er ekki ætlað að taka við hlutverki Díönu, prinsessu af Wales. Þau Karl munu til dæmis ekki gifta sig í Sankti Páls dómkirkjunni heldur hjá borgarfógeta. Camilla Parker Bowles er stóra ástin í lífi Karls Bretaprins. Þau hittust fyrst á pólóleik árið 1971 þegar hann var 22 ára og hún 23. Þau áttu í heitu ástarsambandi í tvö ár en svo fór að hún giftist foringja í hernum, Andrew Parker Bowles, og eignaðist með honum tvö börn. Karl kvæntist aftur Díönu Spencer og eignaðist með henni tvo syni. Bæði skildu eins og frægt er orðið. En nú eru þau loks að ná saman og þjóðin virðist nokkuð sátt, alla vega ríkisstjórnin. Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, sagðist samgleðjast Karli og Camillu. Þetta væru gleðitíðindi og þegar ríkisstjórnin hefði heyrt af fyrirhugaðri giftingu hefði hún sent þeim hamingjuóskir og kveðjur fyrir hönd stjórnvalda. Meðal titla Karls er prins af Wales og því liggur beint við að eiginkona hans sé prinsessan af Wales. Camilla verður hins vegar hennar konunglega hátign hertogaynjan af Cornwall, sem er annar titill sem Karl ber, en sýnu lægri. Þá fær hún ekki titilinn drottning þegar Karl tekur við konungdómi heldur verður hún kölluð „Princess Consor“ sem þýðir eiginlega bara eiginkona konungs.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.