Erlent

Yfirvöld íhuga að banna mótmæli

Fjölmennustu mótmæli í sögu Líbanons fóru fram í dag þegar tæp milljón andstæðinga Sýrlendinga gekk um götur höfuðborgarinnar. Yfirvöld í Líbanon virðast hins vegar hafa fengið nóg af þessari borgarabyltingu og íhuga að setja hömlur á frekari mannsöfnuði. Líbanar gera fátt annað þessa dagana en ganga um götur Beirút, annaðhvort til að mótmæla veru sýrlenska hersins í landinu eða til að sýna Sýrlendingum stuðning. Tæplega ein milljón manna safnaðist saman í miðborginni í dag í tilefni af því að mánuður er liðinn frá því forsætisráðherra landsins, Rafik Hariri, var ráðinn af dögum, að því að talið er að undirlagi Sýrlandsstjórnar. Mannfjöldinn mótmælti veru sýrlenska hersins í Líbanon og er talið að þetta sé fjölmennasta mótmælaganga í sögu landsins, mun fjölmennari en ganga sem stuðningsmenn Sýrlendinga stóðu fyrir í höfuðborginni í síðustu viku, að undirlagi Hizbollah-samtakanna. Það má segja að með þessu séu íbúar landsins að láta í ljós vilja sinn í ofbeldislausri borgarabyltingu og svo virðist sem þetta sé að verða æ algengari framgangsmáti í þeim löndum þar sem fólk býr við takmarkað lýðræði. Skemmst er að minnast appelsínugulu borgarabyltingarinnar í Úkraínu og rósabyltingarinnar í Georgíu. Í báðum tilvikum fengu íbúar í gegn breytingar á stjórnarfyrirkomulagi landanna með friðsamlegum en þrálátum mótmælagöngum. Nú er að sjá hvort eitthvað slíkt gerist í Líbanon. Það gæti brugðið til beggja vona því yfirvöld íhuga að banna mótmælasamkomur frá og með deginum í dag. Þau vilja hvetja fólk til að koma skoðunum sínum á framfæri á annan hátt, til dæmis með samningaviðræðum á milli stjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×