Innlent

Björguðu lífi vinar síns

Tveir ellefu ára drengir unnu hetjudáð um helgina þegar þeir björguðu lífi tíu ára vinar síns. Þremeningarnir voru í Kringlunni þegar einn þeirra fann fyrir miklum verk, en í ljós kom að hann var með gat á lunga. Hundur eins var með þeim og varð það til þess að strætóbílstjóri neitaði þeim um far. Félagarnir þrír brugðu sér í Kringluna á laugardag. Á leiðinni þangað fann einn þeirra, Róbert Heiðar, fyrir verk, en lét ekki á neinu bera. Í Kringlunni fengu þeir sér ís og versnaði þá líðanin. Þeir ákváðu að snúa heim og fóru út á strætóbiðstöð en þar sem þeir voru með hund eins þeirra fengu þeir ekki far með vagninum. Alexander Theódórsson, einn strákanna, segir að á leiðinni frá strætóskýlinu hafi Róbert hnigið niður og verið mjög illt. Hann og Arnar Þór Stefánsson hafi gripið um hann og stutt hann í aftur strætóskýlið og þeir hafi fengið far með næsta strætó. Farþegi sem var í þeim vagni sá að ekki var allt í lagi og ætlaði að hringja á neyðarlínuna. Þeir afþökkuðu það enda nánast komnir á leiðarenda. En þegar þeir komu út úr vagninum var Róbert Heiðar orðinn mjög slappur og þurfti félagi hans, Arnar Þór, að halda á honum heim. Aðspurður hvort það hafi ekki verið erfitt sagði Arnar svo ekki hafa verið. Þegar Róbert kom heim lagðist hann í gólfið alveg uppgefinn og með verki. Hann var fluttur á sjúkrahús þar sem í ljós kom gat á lunga og þarf hann að taka lífinu með ró. Hann og bjargvættirnir og einn félagi til viðbótar voru í veislu á heimili Róberts í dag þar sem þeim var þökkuð frammistaðan. Þremeningarnir voru með síma á sér þegar þeir voru í Kringlunni á laugardag en notuðu ekki. Róbert segir að félagar hans hafi reynt að hringja en hann hafi ekki viljað það þar sem hann hafi haldið að hann væri bara með lítinn verk sem hann fengi stundum. Aðspurðir hvort þeir hafi ekki verið hræddir svöruðu þeir játandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×