Innlent

Úrbóta þörf í fangelsismálum

Fangavarðafélag Íslands styður eindregið tillögur Fangelsismálastofnunar um markmið í fangelsismálum og framtíðaruppbyggingu fangelsana á Íslandi. Þetta kemur fram í tilkynningu sem félagið sendi frá sér í dag. Í skýrslu Fangelsismálastofnunar um ástand og framtíð fangelsismála á Íslandi, sem afhent var dómsmálaráðherra fyrr á árinu, kemur fram að það styttist í lokun tveggja fangelsa á höfuðborgarsvæðinu. Fyrirsjáanleg fjölgun fanga á næstu árum þýðir að kerfið megi augljóslega ekki við því að plássum fækki, nema síður sé, og telur Fangavarðafélagið afar brýnt að lokið verði hið fyrsta við þá miklu undirbúningsvinnu sem þegar hefur verið unnin varðandi byggingu fangelsis í Reykjavík, sem leysa á af hólmi Hegningarhúsið við Skólavörðustíg og Fangelsið í Kópavogi, og að hið nýja fangelsi rísi sem allra fyrst. Jafnframt, að lokið verði við frekari uppbyggingu á Litla-Hrauni, Kvíabryggju og í fangelsinu á Akureyri. Sú stefna sem Fangelsismálastofnun birtir í skýrslu sinni til ráðherra um starfsemi nýs fangelsis er að mati Fangavarðafélagsins bráðnauðsynleg og kveðst félagið oft hafa bent á nauðsyn þess að markvisst sé tekið á málefnum fanga við upphaf úttektar og að afplánunaráætlun verði gerð í samráði við fangann sjálfan. „Afar áríðandi er að þeir fangar sem þess þurfa eigi kost á að hefja afplánun í afeitrun og/eða í meðferð sem hentar hverjum og einum og að þeir verði aðstoðaðir við að setja sér raunhæf markmið í úttektinni og hvað tekur við að þegar afplánun lýkur. Kostur á meðferð í upphafi afplánunar eins og skýrslan leggur til er þannig mikið framfaraskref í rétta átt sem og önnur þau áform um betrun fanga sem þar koma fram,“ segir í tilkynningunni. Fangavarðafélagið segir löngu orðið tímabært að horft sé til framtíðar í fangelsismálum og uppbyggingu refsikerfisins á Íslandi og markmiðið verði skýrt, þ.e. að fullnusta refsidóma og tryggja réttaröryggi almennings, en einnig að reyna með öllum mætti að draga úr líkum að þeir einstaklingar sem ljúki afplánun brjóti af sér aftur. Fangavarðafélag Íslands fagnar því mjög þeirri stefnumörkun sem fram hefur komið með áformum um byggingu nýs fangelsis og skorar á stjórnvöld að þau beiti sér fyrir því að hafist verði þegar handa við frekari uppbyggingu fangelsiskerfisins og að skýrsla Fangelsismálastofnunar verði höfð þar til hliðsjónar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×