Lífið

Kafar í söguna

Valgarður Stefánsson hefur grafið ýmislegt upp um sögu myndlistar á Akureyri.
Valgarður Stefánsson hefur grafið ýmislegt upp um sögu myndlistar á Akureyri.

"Þetta er mitt framlag til íslenskrar myndlistarsögu," segir Valgarður Stefánsson um bók sem hann sendi nýlega frá sér um sögu myndlistar á Akureyri. Bók Valgarðs heitir Myndlist á Akureyri að fornu og nýju og er gefin út af bókaútgáfunni Hólum. Hún er ríkulega myndskreytt og dregur fram í dagsljósið ýmsa myndlistarmenn sem lítið hefur farið fyrir í myndlistarsögu hér á landi.

"Ég byrjaði eiginlega að safna heimildum í þessa bók fyrir fjörutíu árum. Þá fór ég á bókasafn og leitaði í blöðum að umsögnum um allar sýningar sem höfðu verið haldnar. Þá strax bjó ég mér til úrklippubók og hef síðan verið að klippa úr blöðum allar götur síðan."

Hann segist reyndar í upphafi hafa notað þessar heimildir sínar í áróðursskyni, eins og hann orðar það, því á árunum upp úr 1970 stóð hann ásamt fleiri myndlistarmönnum á Akureyri í baráttu fyrir því að þar yrði komið upp almennilegri sýningar­aðstöðu. "Akureyringar voru lengi vel voðalega rígbundnir við natúralismann og landslagsmyndirnar og kölluðu allt annað bara arg og garg. Klessumálarar, eins og þeir voru kallaðir, voru ekkert velkomnir hérna."

Valgarður rekur sögu myndlistar á Akureyri allt aftur til átjándu aldar, en fyrsta málverkasýningin var hins vegar ekki haldin á Akureyri fyrr en árið 1903. Hann segir sögu myndlistar á Akureyri hafa verið býsna gloppótta undanfarna öld.

"Stundum voru ekki haldnar sýningar árum og áratugum saman. Árið 1948 var síðan stofnaður myndlistarskóli á Akureyri þegar um þrjátíu manna hópur fékk til sín tvo kennara. Sá skóli starfaði tvo vetur en það var upphafið að mörgu sem hefur verið að gerast síðan, því ennþá eru menn sem gengu í þennan skóla að sýna hér á Akureyri."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.