Erlent

Ekki fleiri stórfelldar árásir?

Al-Qaida getur ekki skipulagt stórfelldar árásir á Bandaríkin lengur, samkvæmt leynilegri skýrslu bandarísku alríkislögreglunnar FBI.  Bandarísk yfirvöld leggja ofuráherslu á að handsama Osama bin Laden og knésetja al-Qaida sem Robert Muller, yfirmaður FBI, sagði í síðasta mánuði að ógn stafaði af og að víst væri að al-Qaida liðar hyggðu á árásir í Bandaríkjunum. En nú hafa bandarískir fjölmiðlar komist yfir leyniskýrslu FBI þar sem því er haldið fram að hættan af al-Qaida innan Bandaríkjanna sé ekki svo mikil. Þrátt fyrir mikinn vilja sé geta samtakanna til stórfelldra árása, á borð við árásirnar 11. september 2001, engin. Í skýrslunni segir að engar upplýsingar liggi fyrir um al-Qaida liða sem láti lítið á sér bera og bíði færis. Enn ólíklegra sé að heilu hópar slíkra manna séu að störfum innan Bandaríkjanna. Nokkuð er síðan fréttist af óánægju innan æðstu raða al-Qaida vegna þessa vanda sem stafar ekki síst af því að bandarísk yfirvöld fylgjast leynt og ljóst með arabískum karlmönnum á ákveðnum aldri. Af þessum sökum hafa stjórnendur al-Qaida reynt að fá til liðs við sig fólk af öðrum kynstofnum, ekki síst Evrópubúa og Bandaríkjamenn, en það hefur gengið illa. Sjónvarpsstöðin ABC hefur eftir heimildarmönnum að háttsettir al-Qaida liðar í haldi kvarti undan þeim fáu Vesturlandabúum sem gengið hafi til liðs við al-Qaida, þar sem þeir þykist oft vita meira um Bandaríkin en leiðtogarnir. Að auki séu þeir sjálfstæðir og þvermóðskufullir. Vonir al-Qaidamanna standa nú einkum til þess að fá til liðs við sig óánægða Bandaríkjamenn, þá einkum blökkumenn sem tekið hafa upp íslamskan sið. Ekki hafa þó borist fregnir af því að það hafi tekist auk þess sem slíkir hryðjuverkamenn þykja líklegri til að standa fyrir minni árásum, t.a.m. sprengja sig í loft upp við verslunarmiðstöðvar eða því um líkt. Þrátt fyrir þetta sjá hvorki Bandaríkjamenn né Bretar ástæðu til að anda léttar og hætta leitinni að Osama bin Laden. Deilt er um hvernig túlka beri beiðni bin Ladens til Abu Musabs al-Zarqawis, leiðtoga al-Qaida í Írak, um hjálp við árásir í Bandaríkjunum. Annars vegar má skilja það sem svo að bin Laden reyni að safna liði, en einnig sem örvæntingarfulla beiðni manns sem getur ekki upp á eigin spýtur komið neinu af stað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×