Innlent

Slökkviliðsmönnum þakkað fyrir

Verslun Nóatúns í JL húsinu við Hringbraut var opnuð í gær eftir brunann sem varð um miðjan desember. Þá eyðilagðist allt sem í búðinni var og ekki annað að gera en að byggja nýja verslun frá grunni. Er hún því ein sú glæsilegasta á landinu. Í ljósi sögunnar var Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins fengið til að opna verslunina með viðhöfn og um leið styrkti Nóatún Líknarsjóð slökkviliðsmanna með 500.00 króna framlagi. Sjóðurinn er til að styðja slökkviliðsmenn sem lenda í erfiðleikum vegna starfa sinna og þurfa hugsanlega að leita sér aðstoðar hjá sérfræðingum í útlöndum. Einnig er honum ætlað að styðja fjölskyldur slökkviliðsmanna sem missa lífið við störf sín. Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri er þakklátur Nóatúnsmönnum fyrir framlagið um leið og hann lýsir ánægju sinni með að fyrirtækið hafi byggt upp verslunina á nýjan leik. "Það eru mörg dæmi þess að fyrirtæki hætti eða flytji starfsemi sína eftir að eldur kviknar og því ánægjulegt að þeir klári þetta með þessum hætti," segir hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×