Innlent

Dregur úr líkum á göngum til Eyja

Bergið er erfitt viðureignar. Berggrunnurinn við Eyjar er sagður bæði hrungjarn og lekur.
Bergið er erfitt viðureignar. Berggrunnurinn við Eyjar er sagður bæði hrungjarn og lekur.

Niðurstöður rannsóknar á berggrunni hugsanlegrar jarðgangaleiðar milli lands og Vestmannaeyja benda til að kostnaður við frekari rannsóknir á verkinu muni hlaupa á hundruðum milljóna króna. Íslenskar orkurannsóknir unnu rannsóknarskýrsluna fyrir Vegagerðina og er vonast til að hún muni varpa frekara ljósi á fýsileika ganga milli lands og Eyja.

Í henni kemur meðal annars fram að Eyjamegin þurfi göngin að fara í gegnum 200 metra þykka, óreglulega jarðmyndun og er hluti hennar bæði hrungjarn og lekur. Skýrsluhöfundar telja að ef ákveðið verði að halda áfram undir­búningi verkhönnunar þurfi að leggja út í rannsóknir sem gætu kostað hundruð milljóna króna.

Guðjón Hjörleifsson, alþingismaður og fyrrverandi bæjarstjóri í Eyjum, leggur áherslu á að Vegagerðin hafi fengið tvo sérfræðinga til að grandskoða skýrsluna og þeir skila niðurstöðum eftir sex vikur. Síðan fjallar faghópur samgönguráðuneytisins nánar um málið. "Það er nauðsynlegt fyrir okkur Eyjamenn að niðurstaða liggi fyrir sem fyrst ef við þurfum að snúa okkur að einhverju öðru. Ég er samt töluvert svartsýnni en áður."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×