Innlent

Útgerðarmaður sýknaður

Héraðsdómur Reykjaness hefur sýknað fyrrverandi útgerðarmann í Nirði ehf, af ákæru Ríkislögreglustjóra um fjársvik upp á liðlega fjörutíu milljónir króna. Fjársvikin áttu að vera þau að útgerðarmaðurinn hafi með blekkingum fengið bróður sinn, sem átti líka hlut í félaginu, til að selja sér hlutinn á 42 milljónir króna, miðað við að markaðsvirði félagsins væri aðeins 250 milljónir króna, en það hafi hinsvegar verið að minnstakosti 500 milljónir í raun, og því hafi hann hlunnfarið bróðurinn um rúmar 40 milljónir. Taldi Ríkislögreglustjóri þetta brot á almennum hegningarlögum og krafðist að ákærði yrði dæmdur til refsingar. Bræðurnir gerðu þessi kaup fyrir nokkrum árum þegar mikið var um að útvegsfyrirtæki voru að sameinast og var í þessu tilviki stefnt að sameiningu Njarðar og Búlandstinds. Í sameiningarferlunum var algengt að fyrirtæki reyndu að meta sig sem allra hæst, til að fá sem sterkasta stöðu í nýju sameinuðu félagi og mun svo hafa verið í þessu tilviki. Þetta leiddi til þess misskilnings að Njörður var talinn mun verðmæti en sagt var þegar útvegsmaðurinn keypti hlut bróður síns. Við meðferð málsins voru allar tölur endurmetnar og komst Héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að ósannað væri að útvegsmaðurinn hafi við kaupin á bréfum bróðursins, beitt hann refsiverðum svikum og var hann því sýknaður af kröfum ákæruvaldsins og bótakröfu bróðurins vísað frá dómi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×