Innlent

Vinnubrögð benda á al-Qaeda

Talsmenn lögreglunnar í Lundúnum segja nú að hryðjuverkin bera ummerki þess að hryðjuverkamenn al-Qaeda hafi verið að verki, og hryðjuverkasérfræðingar taka í sama streng. Eftirfarandi ummerki og vinnubrögð benda öll til þess: einföld skotmörk eða svokölluð mjúk skotmörk, tímasetning árásanna á meðan fundi leiðtoga stærstu iðnríkja heims stendur og frumstæð og ódýr tækni. Þetta er verklagið sem al-Qaeda hefur tileinkað sér undanfarið. Al-Qaeda sem gerði árásirnar á Bandaríkin ellefta september 2001 laut stjórn Ósama bin Ladens og var í nánu sambandi við hann. Þessi samtök hafa í raun og veru horfið í hryðjuverkastríðinu svokallaða. Í staðinn er komin al-Qaeda, hugmynd eða heimspeki sem byggir á hryðjuverkasamtökum bin Ladens og vinnur í grófum dráttum að sama markmiði. Þetta er í samræmi við vonir bin Ladens, sem vildi standa í fylkingarbrjósti heilags stríðs gegn trúleysingjum, fylla múslíma eldmóði og hvetja þá til þátttöku í stríðinu. Það virðist hafa tekist. Fótgönguliðarnir í stríðinu eru hins vegar ekki lengur einungis ungir, reiðir menn sem töldu sig ekki eiga von í heimalöndum sínum í Miðausturlöndum. Fótgönguliðarnir eru nú miklu frekar reiðir, ungir menn frá Vesturlöndum; oftast múslímar með ágæta menntun og skilning á nútímatækni og samfélögunum sem þeir starfa og búa í. Síðastu átján mánuði hafa hópar af þessu tagi ítrekað látið til sín taka, bæði í Arabaríkjum og í Miðausturlöndum, til dæmis Írak, Spáni og nú í London, að því er virðist. Þessir hópar skipuleggja einfaldar og ódýrar árásir sem valda skaða á borð við þann sem sjá má eftir árásina í gær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×