Sport

Heimsmetið handan við hornið

Kraftlyftingaheimurinn tók eftir því á dögunum þegar ungur Íslendingur "lék sér" með 400 kíló í réttstöðulyftu á æfingu og lyfti þyngdinni fjórum sinnum fyrir viðstadda. Benedikt Magnússon er nýjasta nafnið í kraftlyftingaheiminum og hefur bætt sig mikið undanfarið. Hann hefur verið við æfingar í Bandaríkjunum, þar sem hann kynnti sér áherslur bestu kraftlyftingamanna heims í einstaka greinum. Hann setur markið hátt og hefur lýst yfir að hann ætli sér að slá Kópavogströllinu Auðuni Jónssyni við á Íslandsmótinu í kraftlyftingum nú í apríl, sem hefur alla burði til að verða rosalegasta mót sinnar tegundar í manna minnum. Auk tilþrifa sinna í æfingastöðinni Gym 80 um daginn þegar hann lyfti 400 kílóunum fjórum sinnum, hefur hann nú tekið 410 kíló og stefnir á að slá heimsmetið á Íslandsmótinu í mánuðinum. "Auðunn er ívið betri en ég í hnébeygjunni, en ég hef verið að bæta æfingatölurnar mínar mikið þar og á alveg eins von á að geta strítt honum þar. Ég á best 260 kíló í bekkpressunni en Auðunn á 290, svo að hann gæti verið á undan mér í bekknum," sagði Benedikt. Þegar við spurðum hann hvort hann héldi ekki að Auðunn tæki 300 kílóin í bekknum núna, úr því að það tókst ekki á Íslandsmótinu í bekkpressu í vetur, stóð ekki á svörum hjá kappanum. "Jú, hann verður líka að gera það til að eiga möguleika í mig," sagði Benedikt. Trompið hjá Benedikt er réttstöðulyftan, eða "deddarinn", eins og þeir kalla hana, eftir ameríska orðinu "deadlift". Þar hefur drengurinn verið að taka stórstígum framförum á síðustu mánuðum og gaf fyrir nokkru út þá yfirlýsingu að hann ætlaði að slá heimsmetið, sem er 423 kíló. "Ég ætla mér að taka þá þyngd sem ég þarf til að vinna Auðun í samanlögðu í réttstöðunni og það má segja ég geti ekki tapað, því ég ætla að bæta heimsmetið og hef hugsað mér að reyna við 1000 pundin, sem er nokkuð sem enginn hefur tekið áður. Það eru 455 kíló og ég veit ekki til þess að nokkur hafi reynt við þá þyngd í heiminum, svo að það verður sögulegt hvort sem það fer upp eða ekki," sagði Benedikt glaðlega, sem lætur það að lyfta hátt í hálft tonn hljóma eins og hann sé að fara að pútta golfbolta. Eins og áður sagði er Benedikt nýkominn frá Bandaríkjunum þar sem hann var við æfingar með nokkrum félögum sínum um hríð. "Ég hef mikið verið að kynna mér hvað þeir bestu í heiminum í hverri grein eru að gera til að ná árangri og tileinka mér svipaðar æfingaaðferðir. Ég skoða þann besta í bekknum og skoða hvernig hann æfir, svo þann besta í hnébeygju og eins í réttstöðunni. Ég veit ekki til þess að menn hafi verið að nota þessar aðferðir og held að þær geti nýst mér vel, enda ætla ég að ná langt. Ég hef verið að æfa alls konar íþróttir með kraftlyftingunum til að halda pústinu og einnig til að halda upp á snerpu og liðleika. Ég hef gaman af öllum íþróttum; mér finnst gaman að prófa þær sem flestar. Þetta var fínn túr þarna úti og við gerðum mikið af því að borða pönnukökur og ýmsar prótínvörur." Þegar Benedikt kom heim frá Bandaríkjunum um daginn, þótti félögum hans í Gym 80 æfingatölur hans nokkuð ótrúlegar, svo hann fann sig knúinn til að sanna mál sitt. "Magnús Ver sagði mér að ég yrði að bakka þetta upp með því að taka 400 í réttstöðunni og ég spurði hann þá hversu oft ég ætti að taka það. Hann sagðist skyldi gefa mér æfingabrókina sína ef ég tæki það þrisvar, svo að ég varð að taka það einu sinni til bara fyrir hann," segir Benedikt, sem er ekki eina heljarmennið í fjölskyldunni, því bróðir hans Magnús er þekktur aflraunakappi og lyftingamaður. Við spurðum Benedikt að lokum hvernig stæði á því að þeir bræður væru svona sterkir. "Ástríða," svarar hann án þess að hika. "Við bræður höfum alltaf verið í þessu af mikilli ástríðu og það hefur alltaf verið mikil keppni á milli okkar, alveg sama hvort það var átkeppni, lyftingakeppni eða aflraunakeppni og ég held að það hafi mótíverað okkur báða mikið. Við vildum báðir vera bestir í öllu sem við tókum okkur fyrir hendur. Ég veit að hann getur orðið miklu betri en ég í aflraunum, en ég veit líka að hann verður aldrei jafn góður og ég í lyftingunum. Við höfum hinsvegar alltaf stutt hvor annan og munum alltaf gera," sagði Benedikt að lokum. Íslandsmótið í kraftlyftingum verður háð laugardaginn 16. apríl á Grand Hotel.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×