Lífið

Duran Duran til Íslands í sumar

Ein vinsælasta og áhrifamesta hljómsveit níunda áratugarins, Duran Duran, mun leika á tónleikum í Egilshöll 30. júní. Sveitin naut gríðarlegra vinsælda á Íslandi, sem og annars staðar, upp úr 1980 en frægðarsól hennar skein sem skærast þegar þriðja LP-plata hennar, Seven and the Ragged Tiger, kom út árið 1983 og lög af henni tröllriðu vinsældarlista Rásar 2. Það er óhætt að segja að koma þeirra Simon Le Bon, John Taylor, Andy Taylor, Nick Rhodes og Rogers Taylor sé löngu tímabær en ungir Íslendingar ólu þá von í brjósti sér að það tækist að fá kappana til að troða upp í Laugardalshöll fyrir um það bil 20 árum síðan. Sveitin hefur tekið nokkrum breytingum í gegnum árin; áherslan í tónlistarsköpun hefur þróast í ýmsar áttir og menn hafa komið og farið úr bandinu. Simon Le Bon og Nick Rhodes hafa þó verið með frá upphafi og ekki alls fyrir löngu sneru týndu Taylorarnir þrír aftur heim þannig að sú Duran Duran sem nú ferðast um heiminn og spilar er sú eina sanna og þeir sem hafa séð til þeirra á sviði á síðustu árum fullyrða að þeir hafi engu gleymt frá því að þeir skutust upp á stjörnuhimininn. Heimildir Fréttablaðsins herma að tónleikahaldarar hafi í upphafi ætlað sér að fá íslenska "eitís" sveit til að hita upp fyrir Duran Duran og hafi rennt hýru auga til Rikshaw. Sú sveit, með Richard Scobie í broddi fylkingar, átti nokkra smelli þegar "sítt að aftan" tímabilið var í algleymi og þótti stæla Duran Duran í einu og öllu. Þessi upphitunaráform urðu þó að engu þegar skilaboð komu frá Duran Duran um að þeir vildu alls ekki að fá neina "eitís" hljómsveit til að hita upp fyrir sig.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.