Innlent

Ríkisstjórnin leitar samstöðu um varnir

Minnismerki sent í endurvinnsluna. Varnarliðið stóð fyrir því á dögunum að P-3 kafbátaleitarflugvél sem staðið hafði um árabil sem minnismerki á svæði varnarliðsins var rifin. Flugvélin fór í endurvinnslu sem brotamálmur.
Minnismerki sent í endurvinnsluna. Varnarliðið stóð fyrir því á dögunum að P-3 kafbátaleitarflugvél sem staðið hafði um árabil sem minnismerki á svæði varnarliðsins var rifin. Flugvélin fór í endurvinnslu sem brotamálmur.

"Það eru engar blikur á lofti um að varnarliðið sé á förum," segir Lisa Kierans, stjórnmálaerindreki hjá bandaríska sendiráðinu. Spurð um stefnu bandarískra stjórnvalda í málefnum herstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli sagði Kierans að engar nýjar upplýsingar væru fyrirliggjandi.

"Ég hélt að þetta snerist ekki um það hvort Bandaríkjamenn vildu vera hér heldur hvort við teldum að þeir þyrftu að vera hér vegna okkar varnarhagsmuna," sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í gær.

Ingibjörg bað Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra að útskýra ummæli sín frá því fyrir helgi þar sem hann lýsti því meðal annars yfir að Bandaríkjamenn yrðu ekki beðnir að vera hér ef þeir vildu ekki vera hér.

"Nú eru liðin fimm ár síðan samningurinn rann út og ég taldi ástæðu til að ræða þetta mál. Það er okkar skoðun að hér þurfi að vera sýnilegar varnir," svaraði forsætisráðherrann. Hann óskaði eftir því að Samfylkingin gæfi upp um hver stefna hennar væri í málinu því mikilvægt væri að um það næðist sem víðtækust samstaða.

Ingibjörg svaraði því til að ekki þýddi að beina spjótum að Samfylkingunni, ríkisstjórnin hefði ekki skilgreint varnarhagsmuni þjóðarinnar. "Forsætisráðherra og utanríkisráðherra eru í vinnu fyrir þjóðina. Þeir eru ekki að skila árangri. Það er núna fyrst að renna upp fyrir þeim að ekki sé samningsvilji af hálfu Bandaríkjamanna," sagði Ingibjörg Sólrún.

"Það er ástæða til að fagna hinum nýja áhuga formanns Samfylkingarinnar á þessum mikilvægu málum," sagði Geir Haarde utanríkisráðherra er hann kvaddi sér hljóðs um málið. Geir sagði að ekki væri vitað til annars en að Bandaríkjastjórn hygðist efna þann varnarsamning sem gerður var árið 1951.

Nánari útfærsla á framkvæmdinni myndi finnast í viðræðum sem væru fram undan. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, sagði að ef ríkisstjórnin væri að leita víðtækrar samstöðu um varnarmál þá væri hennar ekki að vænta úr röðum Vinstri grænna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×