Erlent

Eldgos í Vanuatu-eyjaklasanum

Eldfjallið Mount Marano á Ambae-eyju í eyjaklasanum Vanuatu tók stórkostlegan kipp í dag og gaus gufu og eitruðum lofttegundum þrjá kílómetra upp í loftið. Gosið sem byrjaði að láta á sér kræla þann 27 nóvember, kemur frá vatninu Vui í miðju gýgsins.

Eldfjallafræðingar óttast að haldi gosið áfram muni aurskriður streyma yfir brún gýgsins og fljóta yfir þónokkur þorp á eyjunni. Því er búið að rýma flest þorpin umhverfis fjallið og um fimmþúsund manns, eða helmingur íbúa eyjunnar, hafast nú við í bæjum til norð-vesturs og suð-austurs. Fjögur skip eru við akkeri fyrir utan eyjuna, tilbúin til að rýma hana versni gosið.

Eldfjallafræðingar fylgjast nú með gosinu en hafa litla vitneskju um hvað var að gerast undir fjallinu fyrir gosið. Þeir búast ekki við hraunflæði og telja stærstu hættuna gagnvart íbúum vera fyrrnefndar aurskriður.

Vanuatu er eyjaklasi í Suður-Kyrrahafi, rúmlega tvöþúsund kílómetra norðaustur af Sidney í Ástralíu og búa rúmlega 200.000 manns í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×