Erlent

Reynir að taka af tvímæli um stefnuna

Rice í Úkraínu. Ásakanir um vafasöm vinnubrögð CIA eltu bandaríska utanríkisráðherrann áfram á Evrópuför hennar í gær.
Rice í Úkraínu. Ásakanir um vafasöm vinnubrögð CIA eltu bandaríska utanríkisráðherrann áfram á Evrópuför hennar í gær.

Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, reyndi í gær að taka af öll tvímæli um stefnu Bandaríkjastjórnar hvað varðar harka­legar aðferðir við yfirheyrslu. Lýsti hún því yfir að enginn starfsmaður bandarískra stofnana mætti beita fólk niðurlægjandi meðferð, hvort sem væri í eigin landi eða erlendis.

Ummæli Rice, sem hún lét falla í opinberri heimsókn sinni í Úkraínu, komu í kjölfar misvísandi upplýsinga í Bandaríkjunum um það hvort liðsmenn leyniþjónustunnar CIA hefðu heimild til að beita aðferðum sem starfsmönnum annarra bandarískra stofnana, svo sem hersins, væri óheimilt. Ummælin fylgja líka í kjölfar djúpstæðrar og viðvarandi gagnrýni frá bandamönnum Bandaríkjanna í Evrópu á yfirheyrsluaðferðir svo sem "vatnsbrettið", þar sem fangar eru reyrðir við trébretti og dýft í vatn. Rice sagði að það væri þáttur í stefnu Bandaríkjastjórnar að sáttmáli Sameinuðu þjóðanna gegn pyntingum "gildi um bandaríska liðsmenn hvar sem þeir eru, hvort sem það er í Bandaríkjunum eða utan þeirra". SÞ-sáttmálinn bannar líka aðferðir sem ekki uppfylla strangt til tekið hina lögfræðilegu skilgreiningu á pyntingum, þar á meðal aðferðir sem mannréttindasamtök hafa sakað bandarísk yfirvöld um að beita kerfisbundið í fangabúðunum í herstöð Bandaríkjahers í Guantanamo á Kúbu. Talsmenn Bandaríkjastjórnar hafa áður sagt að bannið við harðneskjulegri, ómannúðlegri og niðurlægjandi meðferð fanga gildi ekki um Bandaríkjamenn að störfum utan Bandaríkjanna. Í framkvæmd þýddi þetta að liðsmenn CIA hefðu heimild til að beita aðferðum í fangelsum á erlendri grund sem þeim væri óheimilt heima fyrir. Þrátt fyrir þetta ósamræmi sagði Scott McClellan í gær að sú stefna sem utanríkisráðherrann lýsti væri gildandi stefna stjórnarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×