Innlent

Stjórnarformaður FL fær ádrepu

Inga Jóna Þórðardóttir, fyrrverandi stjórnarmaður í FL Group, sakaði Hannes Smárason stjórnarformann um að virða hvorki starfsreglur né samþykktir félagsins á hluthafafundi í dag. Þrír stjórnarmenn sögðu af sér í lok júní og þrír aðrir seldu allan hlut sinn í félaginu og hurfu á braut. Nýir menn í stjórninni eru þeir Jón Ásgeir Jóhannesson, Skarphéðinn Berg Steinarsson, Magnús Ármann, Sigurður Bollason Þorsteinn M. Jónsson og Einar Ólafsson. En áður en kjörið fór fram kvaddi Inga Jóna Þórðardóttir, ein þeirra sem gekk úr stjórninni, sér hljóðs og hún sagði að í veigmiklum atriðium væri verulegur misbrestur á að farið væri eftir þeim reglum sem í gildi eru.Hún taldi því nauðsynlegt að gerðar yrðu ákveðnar ráðstafanir til að tryggja að stjónunarhættir væru í fullu samræmi við þann ramma sem samþykktir félagsins og starfsreglur félagsins kveða á um. Inga Jóna vitnaði í starfsreglur og samþykktir félagsins og sagði þar kveðið skýrt á um hlutverk og ábyrgð stjórnar ganvart meðferð fjármuna. Stjórnin þyrfti að undirbúa og samþykkja allar meiriháttar ákvarðanir og fjárfestingar . Þá þyrftu hagsmunir hluthafa að vera í fyrirrúmi. Þá ítrekaði hún að skýra þyrfti verkaskiptingu milli stjórnarformanns og varaformanns félagsins. Fl Group þyrfti að setja sér skýrar reglur og lúta þeim eins og aðrir á markaði. Hún sagði að traust væri undirstaða í öllum viðskiptum og að félag sem starfaði á markaði og væri í harðri samkeppni ætti allt sitt undir því að traust ríki milli hluthafa, starfsmanna, stjórnenda og viðskiptavina. Hannes Smárason gaf lítið út á ádrepu Ingu Jónu og sagðist ekki vilja eiga í orðaskaki við hana út af skoðunum hennar. Hann benti líka á að verið væri að keyra félagið áfram mjög hart og hratt og að félagði ætlaði og væri að ná miklum árangri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×