Innlent

Samstillt átak þarf til

Íbúðalánasjóður segir að með samstilltu átaki sveitarfélaga, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, sé hægt að draga úr þrýstingi á íbúðaverð með aukinni lóðaúthlutun. Hallur Magnússon hjá Íbúðalánasjóði segir einfalda skýringu á þessu. Fasteignaverð sé komið töluvert yfir kostnaðarverð við byggingu nýrrar íbúðar. Ef nóg væri um lóðir til að byggja nýjar íbúðir þá sé ljóst að fólk vilji frekar nýja íbúð á lægra verði en gamla íbúð fyrir of hátt verð. Með auknu lóðaframboði myndi skapast jafnvægi með tímanum svo fremi sem lóðaverð yrði ekki svo hátt að það hafi áhrif á íbúðaverð. Varðandi fréttir af svimandi háu lóðaverði á vissum svæðum að undanförnu sagði Hallur að þar væri um að ræða tiltölulega fáar lóðir á mjög vinsælum slóðum og í viðlíka tilvikum myndi lóðaverðið og þar með íbúðaverð þar ekki lækka þrátt fyrir aukið lóðaframboð annars staðar. Þegar á heildina væri litið myndi hins vegar draga úr þrýstingi á hækkanir með fleiri lóðum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×