Innlent

Algjört sinnuleysi

Góðærið tekið af ellilífeyrisþegum. Ellilífeyrisþegar hafa misst af góðærinu og kaupmáttur þeirra að jafnaði aðeins aukist um tíu prósent á tíu árum.
Góðærið tekið af ellilífeyrisþegum. Ellilífeyrisþegar hafa misst af góðærinu og kaupmáttur þeirra að jafnaði aðeins aukist um tíu prósent á tíu árum.

"Þetta hefur verið stefna þessarar ríkisstjórnar alla tíð frá 1996 að gefa ellilífeyrisþegum enga hlutdeild í þeirri uppsveiflu sem ríkt hefur hér undanfarin ár og þetta er staðfesting á því." segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar.

Hún vitnar þar í gögn þau er komið hafa fram á fundum samráðsnefndar um öldrunarmál en samkvæmt þeim gögnum hefur þróun kaupmáttar ráðstöfunartekna venjulegs ellilífeyrisþega í sambúð verið úr öllum takti við þá 60 prósenta aukningu sem forsætisráðherrann, Halldór Ásgrímsson, segir hafa átt sér stað hjá heimilunum í landinu síðustu tíu ár.

Tölur Landssambands eldri borgara benda til að kaupmáttur sömu ráðstöfunartekna aldraðra hafi á sama tíma aðeins vaxið um tæp tíu prósent. Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, viðurkennir að tölurnar séu réttar.

"Þetta er ekki alveg jafn einfalt og þetta hljómar. Kaupmáttur þeirra allra lægstu hefur hækkað meira en þessar tölur gefa til kynna. Öllu máli skiptir að kaupmátturinn hefur hækkað. Auðvitað munar töluvert í prósentum en á það ber að líta að mikið launaskrið hefur orðið í þjóðfélaginu á þessum tíma og það hefur mikil áhrif auk annarra þátta. En þetta er ekkert nýtt heldur mál sem er stöðugt í umræðunni og við vitum af þessu."

Ingibjörg Sólrún segir þetta hafa verið skipulagt allar götur frá því þessi stjórn tók við völdum. "Það fyrsta sem þessi stjórn gerði á sínum tíma var að aftengja lífeyri og laun og það hefur haft í för með sér að margir ellilífeyrisþegar eru á vonarvöl og það er hægt að segja að stjórnin hafi með þessum aðgerðum sínum tekið góðærið af ellilífeyrisþegunum. Þeir hafa alls ekki notið þess og það er ekkert sem hefur gerst óvart. Þetta hefur verið hrein og bein stefna síðan þessi ríkisstjórn tók við. Sinnuleysið er algjört."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×