Innlent

Kjör aldraðra batna minnst

Ráðstöfunartekjur ellilífeyrisþega hafa ekki aukist í samræmi við aðra í þjóðfélaginu. Einstaklingur með hundrað þúsund króna tekjur greiðir nú tæpar tíu þúsund krónur í skatta. Með sömu rauntekjur við upptöku staðgreiðslu skatta árið 1988 greiddi sami einstaklingur ekki krónu enda voru skattleysismörkin hærri en tekjur hans þá.
Ráðstöfunartekjur ellilífeyrisþega hafa ekki aukist í samræmi við aðra í þjóðfélaginu. Einstaklingur með hundrað þúsund króna tekjur greiðir nú tæpar tíu þúsund krónur í skatta. Með sömu rauntekjur við upptöku staðgreiðslu skatta árið 1988 greiddi sami einstaklingur ekki krónu enda voru skattleysismörkin hærri en tekjur hans þá.

Kaupmáttur ráðstöfunartekna meirihluta aldraðra hefur ekki hækkað neitt í líkingu við það sem stjórnvöld vilja meina samkvæmt nýjum útreikningum Landssambands eldri borgara. Sýna þeir útreikningar að kaupmáttur ráðstöfunartekna venjulegs ellilífeyrisþega frá árinu 1995 hefur aðeins hækkað um tæp tíu prósent og í raun lækkað sé farið aftur til ársins 1988.

Dæmi er tekið af ellilífeyrisþega sem er í sambúð. Meðaltekjur hans úr lífeyrissjóði eru 47.600 krónur sem þýðir að kaupmáttur ráðstöfunartekna hans hefur aukist um 9,6 prósent frá 1995. Sé farið lengra aftur, til ársins 1988, hefur kaupmáttur þessa sama manns beinlínis rýrnað um 1,6 prósent.

Sé litið á þróun kaupmáttar ráðstöfunartekna ellilífeyrisþega með enn hærri tekjur úr lífeyrissjóði er staðan enn verri. Þannig hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna einstaklings með 144 þúsund króna ellilífeyri aðeins aukist um 2,1 prósent síðustu tíu ár.

Þessar tölur eru í ósamræmi við yfirlýsingar Halldórs Ásgrímssonar að almennur kaupmáttur ráðstöfunartekna hafi aukist hérlendis um allt að 60 prósent á síðustu tíu árum. Gögn þessi hafa þegar verið lögð fram fyrir sérstaka samráðsnefnd um öldrunarmál, en þar sitja þeir Pétur Guðmundsson og Einar Árnason frá Landssambandi eldri borgara auk þeirra Hallgríms Guðmundssonar og Eyþórs Benediktssonar frá fjármálaráðuneytinu og Hrannar Ottósdóttur og Jóns Sæmundar Sigurjónssonar frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti.

Pétur segir engar athugasemdir hafa verið gerðar við útreikningana enda gefi þeir rétta mynd af raunverulegri stöðu mála meðal aldraðra og ekkert hægt að véfengja þar. "Það er staðreynd að ellilífeyrisþegar hafa setið eftir og allt tal um annað er bara þessi venjulegi leikur að tölum sem embættismenn eru svo hrifnir af í því skyni að slá ryki í augu fólks." Pétur hefur um alllangt skeið staðið í eldlínunni fyrir eldri borgara en segist ekki sérstaklega bjartsýnn hvað varðar störf þeirrar nefndar sem hann situr nú í. "Nei það get ekki sagt. Það er ekkert nýtt að okkur er oft ýtt til hliðar en ég hefði kannski haldið að þar sem líða fer að kosningum að þessir háu herrar hefðu vit á að taka betur á móti okkur gamla fólkinu enda stór hópur sem hefur kosningarétt."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×