Innlent

Hlutfallslega færri úti í nám

Verslunarráð Íslands hefur tekið saman tölur um nám Íslendinga erlendis. Í úttektinni kemur fram að íslenskum námsmönnum í Bandaríkjunum hefur fækkað um 44,1 prósent á sama tíma og mikil aukning hefur verið í háskólanámi hérlendis. Þó fleiri Íslendingar stundi nám erlendis er hlutfall þeirra af íslenskum námsmönnum orðið mun lægra. Langmest aukningin er í Danmörku, þar sem flestir Íslendingar eru við nám. Verslunarráðið byggir úttekt sína á tölum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna en gera má ráð fyrir því að langflestir námsmenn erlendis taki námslán hjá LÍN. Lánþegum í námi erlendis hefur aðeins fjölgað um 17 prósent frá árinu 1999 meðan lánþegum hefur alls fjölgað um 44,3 prósent. Gera má ráð fyrir því að flestir sem stunda nám erlendis taki námslán hjá LÍN meðan mun lægra hlutfall íslenskra námsmanna er á námslánum. Stóraukin menntun hér á landi síðustu ár virðist því fyrst og fremst skila sér í auknu háskólanámi hér á landi. Halldór Benjamín Þorbergsson, hagfræðingur hjá Verslunarráði, segir að skólagjöld hafi farið hækkandi í Bandaríkjunum á síðustu árum. "Ekki bætir úr skák að gengi dollarans var mjög hátt þangað til nýlega." Einnig gæti ástæðan verið sú að almennt fari Íslendingar í grunnnám hér heima en í meistaranám erlendis og því eigi menntunarsprengjan einfaldlega eftir að skila sér til útlanda. "En þá er spurning hvort við viljum ekki að menn sæki nám til fleiri landa." Aukning háskólanáms byrjaði að aukast svo mikið fyrir um fjórum árum, og því kann þess að vera skammt að bíða að hún skili sér í stórauknu meistaranámi erlendis. "Íslenskir háskólar þyrftu að efla tengslin við erlenda háskóla, og líta þá í auknum mæli til bandarískra háskóla og jafnvel Asíu," segir Halldór. "Að sama skapi væri eðlilegt að gaumgæfa hvort veita eigi nemendum skólagjaldalán til að stunda grunnnám erlendis, jafnvel þótt hægt sé stunda sambærilegt nám í íslenskum skólum. Þótt skólar á Norðurlöndum hafi komið vel út í alþjóðlegum samanburði þá er fjölbreytni í íslensku atvinnulífi ómetanleg."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×