Innlent

Þjóðvegurinn styttist um 50 km

Þjóðvegurinn milli Ísafjarðar og Reykjavíkur styttist um fimmtíu kílómetra á næstu átta árum samkvæmt stefnumörkun sem samgönguráðherra hefur kynnt. Þrír firðir á sunnanverðum Vestfjörðum verða brúaðir og göng grafin milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Þetta þýðir að þjóðleiðin til Ísafjarðar gæti í framtíðinni legið á ný um suðurfirðina en ekki Djúpið. Þjóðvegurinn milli Þorskafjarðar, Djúpafjarðar og Gufufjarðar liggur nú yfir tvo erfiða hálsa, Ódrjúgsháls og Hjallaháls, en mun á næstu árum færast niður á láglendi. Á stjórnmálafundi sjálfstæðismanna á Patreksfirði í vikunni brugðust fundarmenn við með dynjandi lófataki þegar Sturla Böðvarsson samgönguráðherra kynnti þá ákvörðun að stefna að því að firðirnir þrír verði brúaðir. Í vegstyttingu munar mestu um þverun Þorskafjarðar en það er hins vegar valkostur sem búist er við að farið verði í eftir að búið verður að þvera Gufufjörð og Djúpafjörð. Verkefnið á hins vegar eftir að fara í gegnum umhverfismat en vegarstæðið liggur meðal annars yfir skerjagarð og um mesta skóglendi Vestfjarða í utanverðum Þorskafirði. Sturla Böðvarsson kvaðst í samtali við Stöð 2 í dag þó vonast til að framkvæmdir við þverun fjarðanna gætu hafist innan tveggja ára. Önnur bylting í samgöngumálum Vestfirðinga er komin á dagskrá, jarðgöng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar, en Sturla ítrekaði á Patreksfjarðarfundinum þá stefnu að þau kæmu í kjölfar Héðinsfjarðarganga. Ráðherrann kveðst vonast til þess að menn geti farið að bora þarna á milli árið 2011. Þegar menn skoða vegakerfið á Vestfjörðum má glöggt sjá að þessar tvær ákvarðanir gætu haft víðtæk áhrif. Fyrir þrjátíu árum mörkuðu þingmenn fjórðungsins þá stefnu að þjóðleiðin milli Ísafjarðar og Reykjavíkur yrði um Djúp og Steingrímsfjarðarheiði en hún er 496 kílómetra löng. Menn fara þó frekar Þorskafjarðarheiði þegar hún er fær á sumrin og spara sér þannig 55 kílómetra akstur. Gamla Vestfjarðaleiðin sem áður var farin, um aðalleiðina til Ísafjarðar, er 457 kílómetra löng. Með 22 kílómetra styttingu á suðurfjörðum fer þessi leið niður í 435 kílómetra og með jarðgöngum milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar má ná 27 kílómetra styttingu. Þar með verður suðurleiðin til Ísafjarðar orðin 408 kílómetra löng og spurning hvort hún verði á ný aðalleiðin í framtíðinni. Brúun Mjóafjarðar í Djúpi og vegur um Arnkötludal á Ströndum munu þó styrkja leiðina um Djúp.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×