Lífið

Ekki alltaf nákvæmt hjá mér

"Jú, það er nú dálítið sérstakt að vera hættur, ég var nefnilega búinn að vera svolítið lengi," segir Friðjón Guðmundsson, bóndi og veðurathugunarmaður til 65 ára. Hann hefur hreiðrað um sig á Hvammi, heimili aldraðra á Húsavík, og unir hag sínum bærilega. "Ég hef það svona sæmilegt og finnst ágætt að vera hér. Ég þekki nú ekki marga en einhverja þó." Aðeins rúm vika er síðan Friðjón flutti frá Sandi á Hvamm svo segja má að hann sé enn að átta sig á vistaskiptunum. Viðbrigðin eru nokkur því hann fæddist á Sandi og bjó þar í 85 ár, ef undan eru skildir tveir vetur sem hann varði til búfræðináms á Hvanneyri. Tvítugur varð hann veðurathugunarmaður og tók við því starfi af Heiðreki bróður sínum. Í 65 ár las hann af mælunum þrisvar á dag og sendi upplýsingarnar á Veðurstofu Íslands sem fyrstu árin var til húsa í Landssímahúsinu við Austurvöll, þá í Sjómannaskólanum á Rauðarárholtinu og loks við Bústaðaveginn þar sem hún er nú. "Maður er orðinn svolítið fullorðinn og maður verður víst svolítið seinn í svifum þegar maður eldist," segir Friðjón en neitar því að verkið hafi verið erfitt og lýjandi undir það síðasta. Hann viðurkennir hins vegar að það séu nokkur viðbrigði að hætta. "Maður verður bara að sætta sig við það. Það er ekki annað að gera." Veðurathuganir útheimta mikla viðveru því lestur af mælum fer fram þrisvar á dag. Friðjón uppljóstrar að hann hafi ekki alltaf gætt ýtrustu nákvæmni í störfum. "Ég þurfti eiginlega að vera alltaf við en það var nú alls ekki svo. Ég var oft fjarverandi á daginn. En þá var einhver fyrir mig eða þá að ég kannski svona freistaðist til að áætla þetta eitthvað. Þetta var kannski ekki alltaf nákvæmt hjá mér." Friðjón segir veðrið í vetur og þá sérstaklega á nýársnótt með því versta sem hann man enda sannkallað óveður. "Það var aftaka stórhríð og ekkert skyggni." Árið 1939 ríkti á hinn bóginn mikil blíða. "Það ár var með þeim bestu. Þá var öndvegistíð svo að segja allt árið." Friðjón hélt fáeinar kýr að Sandi en Heiðrekur bróðir hans hafði þar kindur á sínum búskaparárum. Það var raunar hann sem fyrstur hóf veðurathuganir á Sandi árið 1932 en Friðjón tók við árið 1940. "Heiðrekur bróðir spekúleraði mikið í veðri og faðir okkar líka. Báða dreymdi fyrir veðrum en ekki mig," segir Friðjón og bætir við að veðrið á Húsavík sé ágætt þessa dagana. "Það er fínasta veður en svolítill snjór yfir. Hér er yfirleitt góð tíð."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.