Erlent

Karl olli hneykslan með handabandi

Karl Bretaprins olli hneykslan við útför páfa fyrir að taka í höndina á Robert Mugabe, forseta Simbabwe. Við útförina í gær sat Karl einu sæti frá Mugabe sem er ekki hátt skrifaður í Bretlandi vegna stjórnarfarsins í Simbabwe. Mugabe hefur verið gagnrýndur fyrir að koma yfirleitt í útför páfa en hann má ekki ferðast í Evrópusambandinu. Það á hins vegar ekki við um Vatíkanið. Fulltrúi prinsins segir að það hafi komið Karli algjörlega að óvörum þegar Mugabe teygði sig yfir til hans og rétti fram höndina. Gerðist það á þeim stað í athöfninni þar sem gestir áttu samkvæmt hefð að tengjast sessunautum sínum sem tákn um frið í heiminum og sættir. Karl hafi ekki með góðu móti getað sleppt því að taka í útrétta hönd Mugabes, segir fulltrúi prinsins, og undirstrikar að Karl hafi viðurstyggð á stjórn Mugabes í Simbabwe. Nokkrir þingmenn Evrópusambandsins hafa gagnrýnt Karl harkalega og halda því fram að hann hefði ekki átt að taka í útrétta hönd Mugabes - þetta hafi verið gullið tækifæri til að hundsa hann. Annar þingmaður sagði að þetta væri ekki í fyrsta sinn sem Mugabe sýndi undirferli og nýtti tækifæri sem þetta, og prinsinn hefði átt að sjá við honum. Í síðustu viku tilkynnti flokkur Mugabes að hann hefði unnið meirihluta í þingkosningum í Simbabwe. Breska ríkisstjórnin segir kosningarnar hins vegar hafa verið stórgallaðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×