Innlent

Íbúar í Reykjavík flýja heimili sín vegna eiturgufa

Guðrún Guðmundsdóttir. Sonur Guðrúnar flutti til ömmu sinnar um tíma vegna ástandsins.
Guðrún Guðmundsdóttir. Sonur Guðrúnar flutti til ömmu sinnar um tíma vegna ástandsins.

Fjölskylda við Langholtsveg og íbúi við Hólsveg hafa orðið fyrir miklu heilsutjóni vegna framkvæmda í grenndinni á vegum borgarinnar. Auk þess hafa framkvæmdirnar orðið fjölskyldunni dýrar. Í októberlok og byrjun nóvember var verið að fóðra skolplagnir í hverfinu og svo virðist sem efni sem sett var í lagnirnar hafi farið upp um niðurföll og sturtubotna og valdið heilsutjóni nokkura íbúa.

"Ég fékk hræðileg útbrot á hendur og fætur, húðin meira að segja brann á fótunum og svo var ég með mikil óþægindi í öndunarfærum," segir Soffía Jónasdóttir íbúi á Hólsvegi 17. Nágrannar hennar á Langholtsvegi 42 urðu einnig fyrir verulegu heilsutjóni.

"Faðir minn sem býr hérna hjá mér er með asma og hann fékk mörg köst og fimm sinnum þurfti hann að fara upp á spítala til að fá sprautur," segir Guðrún Guðmundsdóttir sem þar býr.

"Svo er sonur minn með efnaofnæmi og hann gat ekkert verið hér svo hann bjó hjá ömmu sinni í rúmar tvær vikur."

Soffíu var ekki tilkynnt um framkvæmdirnar og eftir að hafa þjáðst í fimm daga hringdi hún í Umhverfissvið Reykjavíkurborgar og fékk hún þá fyrst að vita hvað hafði gerst. "Ég talaði við eiganda Hreinsibíla, en það eru verktakarnir sem gera þetta fyrir borgina, og ég útskýrði málin fyrir honum og bað hann um að borga mér bæði lækna- og lyfjakostnað sem ég varð að leggja í vegna þessa og hann gerði það. En ég er með mína vinnuaðstöðu heima og gat voðalega lítið unnið enda flúði ég til kunningjafólks og fékk að sofa þar í stofusófanum," segir hún.

"Um leið og okkur barst kvörtun sendum við heilbrigðisfulltrúa á staðinn og þeir fundu ekkert sem staðfestir það að heilsutjón konunnar sé af þessum völdum," segir Lúðvík Gústafsson, deildarstjóri mengunarvarna.

"Þeir nota efnið xylol og það berst ekki inn í hús fólks séu skólplagnir þar í lagi og borgin er ekki ábyrg fyrir því að skolplagnir í heimahúsum séu í lagi," segir hann.

Hann hafði ekki heyrt af raunum fjölskyldunnar á Langholtsvegi og viðurkennir að vissulega hefði átt að láta fólk vita af framkvæmdunum og jafnframt að greina frá því að þeir sem væru veikir fyrir gætu orðið fyrir heilsutjóni. Hann sagði þó ábyrgðina frekar liggja hjá verktökum heldur en hjá borginni ef fólk veiktist af þessum völdum. Soffía segir þá hins vegar nota efnið polyrisen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×