Innlent

Þrívíddarskönnun við jarðgangagerð

Ný tækni, þrívíddarskönnun með leysigeislum, gefur bormönnum Arnarfells á Eyjabökkum mun nákvæmari mynd af framvindu jarðgangagerðar en hingað til hefur þekkst hérlendis. Það er reyndar aðeins á þessu einu vinnusvæði Kárahnjúkavirkjunar, í jarðgangagerð við Eyjabakka, sem farið er að nota þessi tækni. Arnarfell er fyrsti verktakinn til að nýta sér hana en fyrirtæki er þar að bora göng sem flytja munu rennsli Jökulsár í Fljótsdal af Eyjabökkum og áleiðis að stöðvarhúsi. Þegar komið er inn í göngin vekur athygli leysigeisli sem hoppar upp og niður eftir gangaveggjunum. Geislinn kemur frá skanna sem teiknar upp mynd af jarðgöngunum í þrívídd af mikilli nákvæmni. Þegar horft er á tölvuskjá sést útkoman betur. Sérfræðingar geta svo velt myndinni, upp og niður og fram og til baka, og séð nákvæmlega hvernig yfirborð ganganna lítur út og greint allar misfellur. Jörgen Hrafnkelsson, tæknifræðingur hjá Arnarfelli, segir þá líka fá mjög nákvæma magnreikninga út úr göngunum og verkkaupin fær þannig nákvæmari upplýsingar um raunverulegan gröft en áður. Og svona tæki kostar sitt að sögn Jörgens, eða eins og „tveir, þrír góðir jeppar“.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×