Innlent

Árás á alþjóðasamfélagið

Herra Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands var staddur í London í gærmorgun þegar hryðjuverkaárásirnar áttu sér stað. Hann segist þó hafa verið í nokkurri fjarlægð frá þeim stöðum þar sem sprengingarnar urðu og því hafi hann ekki orðið þeirra var fyrst í stað. Ólafur Ragnar segir að árásirnar hafi haft mikil áhrif á áform hans og Dorritar sem höfðu ætlað sér að sækja ýmsa atburði í London bæði í gær og í dag, suma sem Dorrit hafði sjálf átt þátt í að skipuleggja enda hafi miðborgin hreinlega lamast í kjölfar árásanna. "Það var fróðlegt að fylgjast með því af hversu miklu æðruleysi og einhug íbúar borgarinnar tóku árásunum. Íbúar London eru sterkur vitnisburður um hið alþjóðlega samfélag, þar sem fólk af öllum kynþáttum sýnir samstöðu í baráttunni gegn niðurrifsöflunum," segir Ólafur Ragnar. "Við Íslendingar erum heppnir með það frjálsa og örugga samfélag sem við búum í. Árásir sem þessar eru árásir á þau gildi," segir Ólafur Ragnar, sem hefur sent Elísabetu Bretadrottningu samúðarskeyti vegna árásanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×