Innlent

Bænastund í Dómkirkjunni

Boðað var til bænastundar í Dómkirkjunni klukkan átta í gærkvöldi vegna atburðanna í London. "Með þessu viljum við sýna vinarþjóð okkar samstöðu og þá sérstaklega fórnarlömbum þar í landi og ættingjum þeirra," segir Hjálmar Jónsson dómkirkjuprestur. Hann bað fyrir fórnarlömbum ofbeldis og illvirkja og minnti á að það væri ekki vilji Krists að svona atburðir ættu sér stað en jafnframt væri Kristur sjálfur staðfesting þess að stundum þjáist saklausir. "Hvað er eðlilegra fyrir fólk en að leita í guðshús á þessari stundu og við urðum bara við því," bætti hann við. Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra og Alp Mehmet sendiherra breta á Íslandi lásu ritningarorð. Jóhann Friðgeir Valdimarsson tenór og kórinn Voces Masculorum sáu um allan söng en aðallega voru sungnir enskir sálmar. Organisti var Marteinn H. Friðriksson. Bænastundinni lauk svo með því að sálmurinn Faðir andanna var sungin en að sögn séra Hjálmars lauk flestum íslenskum messum í síðari heimstirjöldinni á þeim sálmi og var reynt að ítreka stuðninginn við breta með þessum hætti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×