Erlent

Auglýsingar dragi úr sjálfstrausti

Þrír af hverjum fjórum foreldrum í norrænu ríkjunum telja að auglýsingar sem beint er til barna og ungmenna veiki sjálfstraust þeirra. Þetta er niðurstaða stórrar samnorrænnar rannsóknar á neysluvenjum barna sem birt var í dag og er hluti af skýrslu sem unnin var og nefnist „Þrýstingur markaðarins á börn og unglinga á Norðurlöndum“. 74 prósent danskra foreldra segjast sammála eða nokkuð sammála þeirri fullyrðingu að auglýsingar hafi þau áhrif að sífellt fleiri börn og ungmenni verði óánægð með sjálf sig og útlit sitt. Svipað hlutfall foreldra í Svíþjóð, Noregi og Finnlandi er á sömu skoðun og segir að ef börnin eigi ekki farsíma, gangi ekki í flottum merkjavörum og íþróttaklæðnaði verði þau skilin út undan. Þrátt fyrir að foreldrarnir séu óánægðir með þessi áhrif auglýsinganna þá telja 40 prósent þeirra mikilvægt að börnin þeirra fái sömu hluti og önnur börn til þess að verða ekki út undan og þá telja aðeins 25 prósent foreldranna að börnin fái of marga óþarfa hluti.  Neytendamálaráðherra Danmerkur hefur lagt fram frumvarp um að herða lög um auglýsingar sem beinast gegn börnum í landinu, líkt og hugmyndir hafa verið uppi um víðar í Evrópu, en í frumvarpinu er þó aðeins horft til áfengis- og kynlífsauglýsinga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×