Erlent

Friðargæsla SÞ fær yfirhalningu

Lagt er til að friðargæsla á vegum Sameinuðu þjóðanna verði tekin til rækilegrar endurskoðunar í nýrri skýrslu sem birt var í dag. Í henni er farið fram á að þeim friðargæsluliðum sem framið hafi kynferðisbrot gagnvart þurfandi fólki á hættusvæðum víða í heiminum verði refsað, laun þeirra verði lækkuð og komið á fót sjóði til að aðstoða þær konur og stúlkur sem þeir hafi barnað. Skýrsluna vann jórdanski prinsinn Zeid Ra'ad Zeid al-Hussein fyrir Sameinuðu þjóðirnar og þar kemur m.a. fram að ástandið hafi verið verst í Lýðveldinu Kongó þar sem bæði friðargæsluliðar og almennir starfsmenn á vegum Sameinuðu þjóðanna eru sakaðir um að hafa nauðgað konum og stúlkum og að hafa lokkað börn til samræðis með því að bjóða þeim mat. Al-Hussein leggur til að komið verði á fót herrétti í löndunum þar sem brotin voru framin svo að fórnarlömb og vitni að glæpunum geti vitnað gegn friðargæsluliðunum. Þá vill hann einnig að allar þjóðir sem leggja til friðargæsluliða samþykki bindandi reglur um að þeir sem brotið hafi af sér með þessum hætti við friðargæslustörf verði sóttir til saka og að komið verði á fót sjóðum fyrir fórnarlömb kynferðisbrotanna. Alls hafa 105 manns verið ásakaðir um kynferðisbrot í Kongó, þar af er tæplega helmingur brotanna gegn börnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×