Erlent

Ríkislögmaður efaðist um innrásina

Breska ríkisstjórnin er nú aftur lent í vandræðum vegna Íraksstríðsins en því er nú haldið fram að aðallögfræðingur ríkisstjórnarinnar hafi skipt um skoðun varðandi lögmæti innrásarinnar skömmu fyrir innrásina. Málið tengist uppsögn Elísabetar Wilmhurst, lögfræðings í utanríkisráðuneytinu, en hún sagði starfi sínu lausu skömmu fyrir innrásina og sagði að enginn lögfræðigrundvöllur væri fyrir henni. Utanríkisráðuneytið birti afsagnarbréf hennar á miðvikudag en hafði tekið burt nokkrar línur í því. Fréttastofa Stöðvar 4 í Bretlandi komst yfir línurnar sem upp á vantaði og þar kemur fram að Goldsmith lávarður, ríkislögmaður Breta, taldi 7. mars 2003 að innrásin í Írak væri lögleysa og þörf væri á annarri ályktun frá Sameinuðu þjóðunum. Rúmri viku síðar sagði hann að ekki væri þörf á annarri ályktun. Andstæðingar Tonys Blairs forsætisráðherra segja að Goldsmith hafi verið beittur pólitískum þrýstingi og því hafi hann skipt um skoðun en skrifstofa Goldsmiths segir að hann hafi mátt skipta um skoðun þar sem mál hafi þróast hratt síðustu dagana fyrir innrásina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×