Innlent

Skipan dómsmálaráðherra er ógild

Gestur Jónsson og aðrir verjendur í Baugsmálinu. Gestur telur bagalegt fyrir framhald málsins að fá ekki úrskurð um hæfi dómsmálaráðherra.
Gestur Jónsson og aðrir verjendur í Baugsmálinu. Gestur telur bagalegt fyrir framhald málsins að fá ekki úrskurð um hæfi dómsmálaráðherra.

Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði í gær að Sigurður Tómas Magnússon, sérstakur saksóknari í Baugs­málinu, væri ekki bær til þess að fara með ákæruvald í þeim hluta málsins sem ekki var vísað frá dómi í Hæstarétti.

Dómendur líta svo á að Bogi Nilsson ríkissaksóknari hafi aldrei sagt sig formlega frá þeim átta ákæruliðum Baugsmálsins sem enn eru til meðferðar í dómskerfinu, heldur aðeins tekið að sér athugun á þeim 32 ákæruliðum sem vísað var frá dómi.

Bogi Nilsson og Björn Bjarnason dómsmálaráðherra tjá sig ekki um málið og segja báðir að það sé enn í höndum Sigurðar.

"Ég hef þrjá sólarhringa til þess að ákveða hvort þetta verður kært til Hæstaréttar," segir Sigurður T. Magnússon en hann gerir ráð fyrir að ákvörðun sín liggi fyrir á fimmtudag.

"Dómararnir segja að sú ákvörðun dómsmálaráðherra að skipa Sigurð Tómas Magnússon sérstakan saksóknara í öllum fjörutíu liðunum sé ein­faldlega umfram það sem að dómsmálaráðherra hafði heimild til," sagði Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, eftir að úrskurðurinn var birtur.

Í úrskurðinum segir að mikilsvert sé að enginn vafi leiki á því hver fari með ákæruvald í hverju máli og heimild ákæranda til þess að fara með það vald verði því að vera skýr og ótvíræð. Þá segir að dómsmálaráðherra sé óheimilt að taka einstakt mál undan forræði ríkissaksóknara og setja yfir það sérstakan ríkissaksóknara nema hinn reglulegi ríkissaksóknari hafi áður vikið sæti. "...Verður að telja að ekki hafi verið heimilt að fela hinum sérstaka saksóknara að fara með þennan málshluta og sú stjórnarathöfn hafi jafnframt verið ógild að þessu leyti."

Gestur Jónsson telur miður að ekki hafi fengist niðurstaða um hæfi Björns Bjarnasonar, en ekki reyndi á það úr því úrskurðað var að Sigurður væri ekki bær til að fara með ákæruliðina átta. "Það er mikilvægt að dæmt verði um hæfi dómsmálaráðherra því upp geta komið annmarkar á síðari stigum sem eyðilagt geta málsmeðferðina frá upphafi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×