Innlent

Konum á gæsluvöllum sagt upp

Össur Skarphéðinsson, alþingismaður Samfylkingarinnar, gagnrýnir Reykjavíkurlistann harkalega í pistli á heimasíðu sinni í gær. Össur segir að með uppsögnum Reykjavíkurborgar á tuttugu og tveimur konum á gæsluvöllum borgarinnar sé verið að brjóta loforð sem þeim hafi verið gefin. "Hér er vont mál á ferðinni. Ég sem jafnaðarmaður ætlast til þess að Sjálfstæðisflokkurinn kæmi ekki svona fram við starfsfólk Reykjavíkurborgar væri hann við völd og fráleitt að við sem styðjum R-listann sættum okkur við það af hans hálfu," segir Össur. Menntaráð Reykjavíkurborgar samþykkti í mars að semja við konurnar sem um ræðir um að þær tækju að sér ný störf hjá Reykjavíkurborg eða við þær yrði gerður starfslokasamningur. Konunum var hins vegar sent bréf í lok síðasta mánaðar þar sem fram kom að starfslok þeirra miðuðust við 1. september og þær fengju einungis greiddan uppsagnarfrest. Það er að frumkvæði Guðlaugs Þórs Þórðarson, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sem umrætt mál var tekið á dagskrá menntaráðs. Hann segist ítrekað hafa tekið málið upp fyrir hönd sjálfstæðismanna á fundum ráðsins en það hafi hlotið ágætis hljómgrunn en svo hafi ekkert staðið sem samþykkt hafi verið á fundum ráðsins. "Þessum konum er sýnt takmarkalaust virðingarleysi. Mikið af þessum konum eru búnar að vinna nær alla sína starfstíð hjá Reykjavíkurborg við þessi störf, hafa veitt frábæra þjónustu og um það er ekki deilt og nú þegar verið er að leggja þessi störf niður þá sjá forystumenn borgarinnar ekki sóma sinn í því að ganga frá málum þannig að einhver bragur sé á. Starfslokasamningar hafa verið gerðir fyrir um hundrað og tíu milljónir króna á síðustu árum þannig að ekki um fordæmi að ræða. Svona gera menn ekki. Þessar konur eiga betra skilið," segir Guðlaugur Þór. Ekki náðist í Stefán Jón Hafstein, formann menntaráðs.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×