Innlent

Óljóst um ábyrgð í meðlagsmálum

Forstjóri Innheimtustofnunar sveitarfélaga segir óljóst hver sé ábyrgur í meðlagsmálum þar sem barn hefur verið rangfeðrað. Hann segir meðal annars móður barnsins og ranga föðurinn bera einhvern hluta ábyrgðarinnar. Meðlagsmál hafa verið mikið rædd að undanförnu en Innheimtustofnun sveitarfélaga sér um að rukka meðlag sem svo fer til Tryggingastofnunar og stofnunin sér um að borga það út til forsjármanna barna. Innheimtustofnun rukkar eingöngu eftir úrskurðum og dómum sem hefur verið framvísað í Tryggingastofnun og ef þau skjöl hafa ekki verið í lagi og menn útilokast af faðerni seinna, t.d. vegna DNA-rannsókna, hefur meðlag að undanförnu verið endurgreitt fjögur ár aftur í tímann, án vaxta, og skiptir þá engu hversu lengi maður hefur greitt meðlag. Hilmar Björgvinsson, forstjóri Innheimtustofnunar sveitarfélaga, segir þessi fjögur ár miðast við almennan fyrningafrest í málum sem þessum en að verið sé að endurskoða lögin til að þetta þurfi ekki að vefjast fyrir mönnum. En eins og staðan er í dag sé mikið vafaatriði hver beri ábyrgðina. Aðspurður hvort rétti faðirinn sé þá beðinn um meðlag aftur í tímann segir Hilmar að það gleymist að búið sé að nota peningana til framfærslu barnsins. Hilmar segir Innheimtustofnun eingöngu vera millilið í þessu ferli og því sé hún ekki ábyrg, en hver ber þá ábyrgðina? Hilmar segir það fyrst og fremst vera móðurina og barnsföðurinn, þ.e. ef hann finnst.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×