Innlent

Breikkun ekki á döfinni

Breikkun þjóðvegarins alla leið milli Reykjavíkur og Selfoss sem ýmsir telja jafn brýnt samgöngumál og frekari breikkun Reykjanesbrautar er ekki á dagskrá og ekki gert ráð fyrir frekari framkvæmdum á þessari leið næstu þrjú árin. Engu að síður hefur verið reiknað út að með sömu aukningu næstu ár og verið hefur munu vel yfir átta þúsund bílar fara þar um á degi hverjum árið 2008. Í kjölfar ákvörðunar Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra að ráðast í frekari tvöföldun Reykjanesbrautar eftir talsverðan þrýsting frá hagsmunaaðilum hefur talsverð vakning orðið hjá öðrum sveitarfélögum. Á Vesturlandi gerðust raddir háværari um að lækka ætti gjaldið gegnum Hvalfjarðargöngin og aðilum á Suðurlandi finnst brýnt orðið að breikka þjóðveg eitt milli Reykjavíkur og Selfoss alla leið og bæta götulýsingu í leiðinni. Hjá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga hefur verið ályktað um málið og það reifað við samgönguráðherra en undirtektir verið dræmar að sögn Þorvarðar Hjaltasonar framkvæmdastjóra. "Að okkar mati er tími til kominn að breikka veginn alla leið í þrjár akgreinar hið minnsta enda umferð aukist um veginn jafnt og þétt síðustu ár og útlit fyrir að umferðarþungi aukist frekar næstu ár. Þess utan er þörf á viðunandi veglýsingu og miðjuvegriði til að auka öryggi þeirra sem um veginn fara. Útreikningar okkar benda til að kostnaður vegna þessa yrði á bilinu 700 milljónum að einum milljarði króna en ávinningurinn mikill enda sýna rannsóknir að þriggja akreina vegur fækkar slysum um 30 prósent." Umferð um Suðurlandsveg hefur aukist umtalsvert hin síðari ár. Milli Hveragerðis og Selfoss fóru að jafnaði rúmlega sex þúsund bílar dag hvern á síðasta ári og tæplega sex þúsund fóru um Hellisheiðina en til samanburðar er umferðin um Reykjanesbrautina um átta þúsund bílar á dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×