Innlent

Róbótar í matvælavinnslu

Í fréttatilkynningu frá Marel hf. kemur fram að fyrirtækið standi nú á tímamótum í þróun og framleiðslu hátæknibúnaðar fyrir matvælaiðnað því hafin er þróun tækni sem miðar að því að róbótar geti pakkað kjöt- og fiskafurðum án þess að mannshöndin komi þar nærri. Til þessa hafa róbótar einkum verið notaðir þar sem fengist er við einsleita hluti og vinnsluumhverfi er tiltölulega þurrt. Þróunarverkefni Marels felst í því að nýta róbóta til að meðhöndla matvæli, þó svo þau séu bæði breytileg í lögun og viðkvæm og vinnsla fari fram við aðstæður þar sem sérsaklega þarf að huga að bleytu og þrifum. Verkefnin eru að hluta unnin í samstarfi við Tæknisjóð og AVS-sjóð sjávarútvegsins og fylgja þeim ýmis tæknileg úrlausnarefni, s.s. þróun gripbúnaðar, skynjunartækni, frágangur fyrir þrif, sem og hönnun heildarlausna sem falla að fyrirliggjandi vinnsluferlum fyrir fisk annars vegar og kjöt- og alifuglavinnslu hins vegar. „Róbótavæðing í matvælavinnslu er raunhæf á næstu 2-3 árum og eðlilegt svar matvælafyrirtækja á Vesturlöndum við hinu ódýra vinnuafli sem stendur til boða í öðrum heimshlutum,“ segir Hörður. Róbótar taka þá við einhæfum og erfiðum störfum, en starfsfólkið sem sinnir þeim nú færist yfir í meira krefjandi og verðmætari störf.  Jafnframt gefa róbótar kost á auknum sveigjanleika í vinnslu og styttum viðbragðstíma fyrir framleiðslu nýrra afurða. Marel samstæðan er með starfsemi í 13 löndum, auk umboðsmanna í yfir 50 löndum. Starfsmenn Marel eru um 870 talsins, þar af um 340 á Íslandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×