Erlent

Tvö þúsund manns týndu lífi

Nú er talið að allt að tvö þúsund manns hafi týnt lífi í jarðskjálftanum sem varð undan ströndum Súmötru á sunnudaginn. Engin flóðbylgja myndaðist í kjölfar skjálfans og því var manntjónið aðeins brot af því sem varð af völdum skjálftans mikla fyrir þremur mánuðum. Viðvörunarbúnaður er þegar farinn að gefa góða raun. Jarðskjálftinn á sunnudaginn sem átti upptök sín skammt vestur af Súmötru var afar stór, eða 8,7 stig á Richter-kvarðanum. Nias-eyja sem er nánast ofan á skjálftamiðjunni virðist hafa orðið verst úti. Fjöldi húsa hrundi til grunna víðs vegar um eyjuna og beið fjöldi fólks þar bana af þeim sökum. Í gær höfðu hjálparstarfsmenn fundið á fjórða hundrað líka í húsarústum. Óstaðfestar fregnir herma að hundrað lík hafi fundið á Simeulue-eyju sem er skammt frá. Í viðtali við fréttamenn giskaði Jusuf Kalla, varaforseti Indónesíu, taldi að allt að tvö þúsund manns hefðu týnt lífi. Ekkert er vitað um afdrif íbúa Banyak-eyja sem eru á þessum slóðum en þar búa tíu þúsund manns. Talið er að tveir Svíar hafi dáið í hamförunum en þeir voru á brimbrettum við Nias-eyju. Hjálparsamtök hafa þegar tekið að senda vistir og lyf til Nias-eyju. Erfitt er þó um aðdrætti því flugvöllur eyjarinnar eyðilagðist í skjálftanum. Frumútgáfa útbúnaðar sem vara á við flóðbylgjum þótti gefa góða raun í fyrradag enda þótt hann verði ekki að fullu nothæfur fyrr en á næsta ári. Strandhéruð í Taílandi, Indónesíu og á Sri Lanka voru rýmd eftir að búnaðurinn gaf merki um yfirvofandi hættu. Bush Bandaríkjaforseti bauð Indónesum aðstoð sína og vottaði þeim samúð. Þá hafa ríkisstjórnir Ástralíu og Japans heitið því að vera til reiðu ef Indónesar óska þess.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×