Erlent

Skemmdir mestar á Nias-eyjum

Hundruð manna eru látin eftir mikinn jarðskjálfta í Indónesíu í gær og svo virðist sem tjónið hafi orðið mest á Nias-eyjaklasanum. Hins vegar myndaðist ekki flóðbylgja líkt og í skjálftanum annan dag jóla og er það að hluta til skýrt með því að skjálftinn hafi orðið á grunnsævi. Reyndar fór aðeins betur en á horfðist því í fyrstu var talið að allt að tvö þúsund manns væru látnir eftir þennan stóra skjálfta í gær. Þegar hjálparstarfsmenn fóru á stúfana í dag reyndist mannfall hins vegar ekki svo mikið. Birna Halldórsdóttir, sendifulltrúi íslenska Rauða krossins, er stödd á Súmötru. Hún segir að 80 prósent híbýla á Nias-eyjaklasanum hafa hrunið eða skemmst, en þar voru skjálftarnir hvað sterkastir. Sem betur fer hafi færri látist en talið hafi verið í fyrstu, eða um 200 manns. Svo virðist sem skjálftinn hafi valdið hvað mestu tjóni á Nias-eyjaklasanum. Rauði krossinn og indónesíski herinn fóru með hjálpargögn þangað í dag. Hjálparstarfsmenn eru reyndar ekki enn búnir að kanna ástandið á þessum eyjum til hlítar því þeir hafa ekki komist út fyrir stærstu borgina, Gunungsitoli, en eyðileggingin sést glöggt úr lofti. Síðla dags sögðu stjórnvöld í Indónesíu að 330 lík hefðu fundist en sumar hjálparstofnanir spá því að fleiri eigi eftir að finnast látnir. Skjálftinn í gær varð nokkru sunnar en skjálftinn á annan dag jóla en þeir eru á sömu flekamótum. Í fyrstu var talið að jarðskjálftinn í gær hefði verið 8,2 á Richter en nú er komið í ljós að hann var 8,7 á Richter og slagar þar með hátt upp í stærð stóra skjálftans annan jóladag sem jarðskjálftafræðingar telja nú að hafi verið 9,3 á Richter. Í öllu falli er ljóst að skjálftinn í gær var aðeins 5-10 sinnum minni en jólaskjálftinn og því spyrja menn sig: Af hverju myndaðist ekki flóðbylgja núna eins og þá? Steinunn Jakobsdóttir, jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofunni, segir að svarið liggi að hluta til í því að skjálftinn í gær hafi orðið á milli tveggja eyja í Nias-eyjaklasanum, á grunnsævi, og hafi því ekki getað myndað eins stórar flóðbylgjur og hinn. Steinunn segir ekki jafnmikinn vatnsmassa til að koma á hreyfingu eins og við skjálftann í desember. Segja megi að vatnslagið sem koma megi á hreyfingu sé minna yfir skjálftamiðjunni og þar að auki blasi opnara úthaf við þessum skjálfta en hinum sem varð um jólin. Skjálftinn í gær var 13-14 mínútur á leiðinni frá upptökum og til Íslands þar sem hann sást vel á jarðskjálftamælum. Ferðamenn á þeim svæðum sem urðu hvað verst úti í jólaskjálftanum voru víða varaðir við í gær og sagt að forða sér upp á hærri svæði. Kröfur verða æ háværari um að komið verði upp öflugum viðvörunarkerfum þannig að vitað sé með vissu hvort flóðbylgjur fylgi jarðskjálftum af þessu tagi. Steinunn segir að vandamálið við svo stóra skjálfta sé að það bylgjurnar séu svo flóknar og samsettar að erfitt geti verið að staðsetja þá nákvæmlega og ákvarða stærð þeirra. Það taki aðeins lengri tíma að átta sig á þessu en ella og það valdi hugsanlega því að erfitt sé að koma fljótlega með flóðaspá.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×