Erlent

Heiftarlegar deilur á Íraksþingi

Upplausn er á írakska þinginu sem tekst ekki að ná samkomulagi um ríkisstjórn landsins. Heiftarlegar deilur settu mark sitt á þingfundi í dag en þetta er aðeins í annað sinn sem þingið kemur saman. Áður en yfir lauk var fréttamönnum sem fylgdust með hent út og þræturnar héldu áfram fyrir luktum dyrum. Skömmu síðar gekk Iyad Allawi forsætisráðherra út. Þrætueplið er hlutverk súnníta í ríkisstjórninni en þeir eiga afskaplega erfitt með að sætta sig við að ráða ekki lengur eins og á tímum Saddams Husseins. Sjítar og Kúrdar hafa þegar náð samkomulagi um skiptingu embætta forseta og forsætisráðherra sín á milli en Ghazi al-Yawar, sem nú er forseti landsins og súnníti, neitar að sætta sig við embætti forseta þingsins. Deilurnar hafa nú þegar leitt til þess að tafir hafa orðið á fjölmörgum verkefnum og jafnvel aukið á ringulreiðina í landinu. Þingmenn spurðu sig í dag hvernig þeir gætu útskýrt valdabaráttuna fyrir þeim kjósendum sem lögðu bókstaflega líf og limi í hættu til að fara á kjörstað og greiða atkvæði í kosningunum í janúar. Þegar og ef deilunum lýkur tekur við skipting annarra embætta en ekki hefur náðst samstaða um skiptingu ráðuneyta og annarra lykilembætta og því allt eins líklegt að deilurnar haldi áfram um hríð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×