Erlent

Farið fram á 10 ára dóm

Saksóknarar í Moskvu hafa farið fram á það að rússneski olíujöfurinn Míkhaíl Khodorkovskí, aðaleigandi olíurisans YUKOS, verði dæmdur í tíu ára fangelsi ýmiss konar fyrir skatt- og fjársvik. Réttarhöldum yfir Khodorkovskí fer nú að ljúka, en þau hófust í júní á síðasta ári.  YUKOS rambar á barmi gjaldþrots þar sem kröfur skattayfirvalda hljóða upp á 2,5 milljarða dollara, eða 1650 milljarða íslenskra króna, og þá hefur stærsta olíuframleiðslufélagið innan YUKOS-samsteypunnar verið klofið frá henni. Khodorkovskí hefur neitað öllum sakargiftum. Khodorkovskí var handtekinn í október 2003 og hefur setið í varðhaldi síðan. Hann var í hópi svokallaðra ólígarka sem auðguðust vegna einkavæðingar fjölmargra fyrirtækja í kjölfar hruns Sovétríkjanna. Khodorkovskí var mjög gagnrýninn á störf Vladímírs Pútíns Rússlandsforseta og hann hefur haldið því fram að lögsóknin á hendur sér séu pólitískar ofsóknir af hálfu stjórnvalda í Moskvu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×