Erlent

Norska stjórnin fallin

Verkamannaflokkurinn, Framfaraflokkurinn og Vinstriflokkurinn eru sigurvegarar í norsku þingkosningunum í gær. Í gærkvöldi benti allt til þess að vinstrabandalag Verkamannaflokksins, Sósíalíska vinstriflokksins og Miðflokksins næði meirihluta þingsæta og þyrfti ekki að treysta á stuðning þingmanna smáflokka. Þegar Fréttablaðið fór í prentun virtist sem vinstrabandalagið undir forystu Jens Stoltenberg hefði fengið samanlagt 88 þingsæti á móti 81 þingsæti hægriflokkanna. Stjórnarflokkarnir tveir, Hægriflokkurinn og Kristilegi þjóðarflokkurinn, töpuðu miklu fylgi. Talið er að Hægriflokkurinn hafi goldið þess að margir kjósendur hans hafi að þessu sinni kosið Vinstriflokkinn til þess að koma honum yfir fjögurra prósenta fylgi, en þannig öðlaðist hann rétt til uppbótarþingsæta. Allt benti til þess í gærkvöldi að Vinstriflokkurinn næði um sex prósenta fylgi og bætti við sig að minnsta kosti átta þingsætum. Framfaraflokkurinn bætir við sig meira en sjö prósentustigum frá kosningunum 2001 og hefur flokkurinn nú langflest þingsæti á meðal hægriflokka í Noregi. Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðingur sagði í samtali við Fréttablaðið í gærkvöldi að færi svo sem allt benti til, að rauðgræna bandalagið, Verkamannaflokkurinn, Sósíalíski vinstriflokkurinn og Miðflokkurinn, næði völdum yrði það í fyrsta skipti sem sósíalískur flokkur fengi ráðherra í ríkisstjórn í Noregi. Slíkt hefði í raun einungist gerst á Íslandi og í Finnlandi. "Það má einnig telja athyglisvert að Vinstriflokkurinn virðist - ef svo má segja - hafa fengið talsvert af atkvæðum að láni frá Hægriflokknum," segir Ólafur Þ. Harðarson. Jens Stoltenberg, formaður Verkamannaflokksins, fagnaði sigri ákaft í gærkvöldi þegar úrslit lágu fyrir og sagði sigur flokksins mikinn. Erna Solberg, formaður Hægriflokksins, lýsti vonbrigðum og viðurkenndi að sama skapi ósigur flokksins en flokkurinn tapaði þriðjungi þess fylgis sem hann hlaut í kosningunum árið 2001.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×