Erlent

Landafræðin kom að góðum notum

Það getur komið sér vel að hafa athyglina í lagi í landafræðitímum. Það reyndist hinni ellefu ára gömlu Tilly Smith beinlínis lífsnauðsynlegt. Tilly Smith var í gær verðlaunuð fyrir að hafa bjargað fjölda fólks á strandlengju við Taíland á annan i jólum. Þar var hún í sólbaði með foreldrum sínum þegar hún kom auga á froðu í sjónum í fjarska. Tilly segir að það hafi verið eins og sjórinn hafi soðið og bullað og hún hefði kannast við þetta enda hefðu hún séð svipað í landafræðitíma.  Í landafræðitímanum sem hjálpaði Tilly að koma auga á flóðbylgjuna voru sýndar myndir af flóðbylgju við Hawaii frá árinu 1946 og hún var ekki í nokkrum vafa um hvað væri að gerast. Hljóp beint til mömmu sinnar, Penny, sem vildi ekki trúa henni í fyrstu. Penny segir Tilly hafa haldið áfram og þegar hún hafi orðið sífellt æstari hafi hún séð að eitthvað hlyti að verá í uppsiglingu. Til allrar hamingju náði Tilly að sannfæra fjölskyldu sína og fleira fólk sem var á ströndinni um að forða sér. Fólkið kom sér upp á þriðju hæð á hóteli og slapp ómeitt. Líklega hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum ef Tilly hefði ekki fylgst með í landafræðitímanum góða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×