Erlent

Hyggst hrinda umbótum í framkvæmd

Junichiro Koizumi, forsætisráðherra Japans, hyggst nota stóraukinn þingmeirihluta sinn eftir þingkosningar um helgina til að hrinda umbótastefnu sinni í framkvæmd. Flokkur Koizumis, Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn, bætti við sig nær 50 þingsætum í kosningunum og hefur öruggan meirihluta á þingi. Koizumi segir þetta veita sér skýrt umboð til að ráðast í þær breytingar sem séu nauðsynlegar á japönsku efnahagslífi. Hann ætlar ekki að láta staðar numið þegar póstþjónusta Japans hefur verið einkavædd heldur hyggst hann einnig breyta eftirlaunakerfi landsins og beita sér fyrir bættum samskiptum við Norður-Kóreu. Koizumi segir að sumir segi að eftir umbæturnar á póstþjónustunni verði horfið frá öðrum umbótum. Það sé algjör firra. Ráðist verði í ýmsar umbætur á þeim grunni sem lagður hafi verið undanfarin fjögur ár. Þrátt fyrir þennan stórsigur hyggst Koizumi láta af störfum í september á næsta ári þegar kjörtímabili hans sem formanns flokksins lýkur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×