Innlent

Telja fallvötnum ráðstafað

Við Kárahnjúkastíflu. Stjórnarandstæðingar spyrja hvort þegar sé búið að ráðstafa Skjálfandafljóti, Langasjó eða fallvötnum í Skagafirði.
Við Kárahnjúkastíflu. Stjórnarandstæðingar spyrja hvort þegar sé búið að ráðstafa Skjálfandafljóti, Langasjó eða fallvötnum í Skagafirði.

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra mælti í gær fyrir frumvarpi til laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Frumvarpið er nú lagt fram öðru sinni án bráðabirgðaákvæðis um vald nefndar sem meðal annars átti að gera tillögur um virkjunarleyfi og nýtingu auðlinda.

Iðnaðarráðherra taldi brýnt að lögfesta frumvarpið en í því væru ákvæði um að rannsóknaraðili gæti fengið endurgreiddan rannsóknakostnað ef hann fengi ekki jafnframt leyfið til orkunýtingar. Hún vakti athygli á að með gildistöku raforkulaga frá 2003 hefði Landsvirkjun ekki sérstöðu og fleiri orkufyrirtæki sýndu áhuga á rannsóknum.

Steingrímur J. Sigfússon,formaður Vinstri grænna, sagði Valgerði óánægða með að orkufyrirtækin væru tregari til að stunda rannsóknir en henni þætti heppilegt. Taldi hann fullvíst að þau vildu hafa virkjunarleyfi fast í hendi þegar þau réðust í rannsóknir. Fleiri stjórnarandstæðingar staðhæfðu að iðnaðarráðherra keyrði málið áfram vegna fyrirhugaðra stóriðjuáforma og spurðu hvort búið væri að ráðstafa fallvötnum í Skagafirði, Skjálfanda­fljóti eða Langasjó í þágu stóriðjuæðis stjórnvalda, sem svo var kallað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×