Innlent

Stjórnendur KB banka högnuðust um 770 milljónir

Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri bankans, og Sigurður Einarsson stjórnarformaður
Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri bankans, og Sigurður Einarsson stjórnarformaður MYND/Vísir

Sjö æðstu stjórnendur Kaupþings banka högnuðust um samtals 770 milljónir króna í gær með því að nýta sér fimm ára gamlan kauprétt að hlutabréfum í bankanum á því gengi sem gilti fyrir fimm árum. Sigurður Einarsson stjórnarformaður keypti lang mest og hagnast á einum degi um röskar 400 milljónir króna. Næstur honum kemur Hreiðar Már Sigurðsson forstjóri bankans með tæpar 200 milljónir króna í hagnað , miðað við óbreytt gengi í Kauphöllilnni í gær, sem var tæplega 600 á hlut, en þeir keytpu hvern hlut á rúmlega hundrað. Í þessu skyni tilkynnti bankinn í gær um fjölgun hluta um 3,8 milljónir þar sem 2,8 milljónir hlutar yrðu seldar á aðeins 102 krónur hluturinn. Fyrir tveimur árum varð mikil umræða í þjóðfélaginu þegar þessir sömu menn nýttu sér kauprétt í sama banka á samskonar hátt og er mörgum sjálfsagt í fersku minni þegar Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, tók innistæðu sína út úr bankanum í mótmælaskyni. Eftir kaupin í gær er hlutur Sigurðar Einarssonar í bankanum um tveir milljarðar króna og hlutur Hreiðars Más um einn og hálfur, en bankinn er metinn á tæpa 400 milljarða króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×