Innlent

Hornfirðingar byggja reiðhöll

Reiðhöll verður reist fyrir hestamannafélagið Hornfirðing á landi sem sveitarfélagið Hornafjörður hefur keypt af landbúnaðarráðuneytinu. Vonir standa til að landbúnaðarráðherra styrki framkvæmdina um allt að krónu á móti krónu heimamanna.

Reiðhöllin verður reist á sex hektara landi, Fornustekkum/Stekkhól sem keypt hefur verið út úr ríkisjörðinni Bjarnanesi í Nesjum. Sveitarfélagið Hornafjörður hefur keypt landið af landbúnaðarráðuneytinu fyrir tvö hundruð og fimmtíu þúsund krónur og mun láta undir reiðhöllina, hugsanlega endurgjaldslaust.

Gert er ráð fyrir að bygging reiðhallarinnar kosti þrjátíu milljónir króna og mun sveitarfélagið veita 20 milljónir til framkvæmdarinnar. Heimamenn verða því að afla tíu milljóna króna.

Kjartan Hreinsson, formaður hestamannafélagsins, segir að ekki hafi komið nein loforð um peninga en menn geti alltaf lifað í voninni. Kjartan segir þó að ákveðnar vonir séu bundnar við yfirlýsingu Guðna Ágústssonar landbúnaðarráðherra í útvarpsviðtali frá því í vor um að vel komi til greina að ríkið komi að framkvæmdum af þessu tagi með allt að krónu á móti krónu heimamanna.

Landið sem keypt var liggur samhliða félagsaðstöðu Hornfirðings, hesthúsum og æfingasvæði. Kjartan segir að þar sé um verðlaus mýrarfen að ræða sem engar skepnur þrífist á aðrar en hross.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×